Innherji

Borgin leiðir fjölgun stöðugilda í faraldrinum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri. VÍSIR/VILHELM

Reykjavíkurborg hefur fjölgað stöðugildum mun meira en önnur stór sveitarfélög í heimsfaraldrinum. Talsmenn borgarinnar hafa gefið út að mikil fjölgun stöðugilda á stuttu tímabili hafi verið hluti af vinnumarkaðsaðgerðum sem ætlað var að viðhalda ákveðnu atvinnustigi.

Innherji óskaði eftir gögnum um fjölda stöðugilda frá sex stærstu sveitarfélögum landsins en þau eru Reykjavíkurborg, Kópavogur, Hafnarfjörður, Akureyrarbær, Reykjanesbær og Garðabær.

Stöðugildum Reykjavíkurborgar fjölgaði um 13,5 prósent á milli áranna 2019 og 2021 en það eru tæplega eitt þúsund stöðugildi. Þetta er töluvert meiri fjölgun en næsta sveitarfélag á eftir, Garðabær, þar sem fjölgun stöðugilda nam 9,7 prósentum.

Þar á eftir kemur Hafnarfjörður sem fjölgaði stöðugildum um 8,8 prósent en í svari sveitarfélagsins var tekið fram að það hefði tekið við rekstri á einum leikskóla, og opnað grunnskóla, annan leikskóla og tvo nýja búsetukjarna.

Athygli vekur að Akureyrarbær hefur fækkað stöðugildum á síðustu tveimur árum. Fækkunin nemur 6,3 prósentum, eða sem nemur rúmlega 100 stöðugildum. Samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2022 mun stöðugildum fækka enn frekar, eða úr 1.529 niður í 1.513.

Ef leiðrétt er fyrir þróun íbúafjölda er Reykjavíkurborg enn efst á lista. Stöðugildum á hvern íbúa hefur þannig fjölgað um 9,7 prósent á tímabilinu. Fast á eftir borginni fylgir Hafnarfjörður þar sem fjölgun stöðugilda á hvern íbúa hefur numið 9,2 prósentum.

Með því að leiðrétta fyrir þróun íbúafjölda færist Hafnarfjörður upp listann en á móti kemur Garðarbær mun betur út. Þar hefur fjölgun stöðugilda á hvern íbúa numið einungis einu prósenti á síðustu tveimur árum. Fjölgun íbúa hefur þannig vegið upp á móti fjölgun stöðugilda að mestu leyti. 

Einungis Kópavogur og Akureyrarbær hafa fækkað stöðugildum á hvern íbúa í heimsfaraldrinum. Hjá Kópavogsbæ nemur fækkunin 2,2 prósentum en hjá Akureyrarbæ nemur hún 7,7 prósentum.

Fjölguðu starfsfólki til „skamms tíma“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, var nýlega spurð um mikla fjölgun borgarstarfsmanna í sjónvarpsþættinum Silfrinu. Þórdís sagði að fjölgunin væri hluti af vinnumarkaðsaðgerðum sem borgin hefði ákveðið að ráðast í.

„Við tókum þá ákvörðun að standa með vinnumarkaðinum og halda ákveðnu atvinnustigi. Við fórum í að setja mörg hundruð milljónir í vinnumarkaðsaðgerðir. Sannarlega höfum við fjölgað fólki sem kemur til okkar til skamms tíma,“ sagði Þórdís Lóa.

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs.VÍSIR/VILHELM

Rekstur sveitarfélaga ekki sjálfbær

Á röskum 40 árum, frá árinu 1980 til 2020, sýna gögn hagstofu að heildarafkoma sveitarfélaga hefur verið neikvæð í 33 ár og jákvæð í aðeins 8 ár, síðast árið 2007. Þetta kom fram í umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga um fjárlagafrumvarpið.

„Hér er um að ræða mikilvæga vísbendingu um að rekstur sveitarfélaga sé ekki sjálfbær til lengri tíma litið,“ segir í umsögninni. „Árin sem skilað hafa jákvæðri heildarafkomu fyrir sveitarfélög einkennast af óhemju mikilli þenslu í íslenskum þjóðarbúskap.“

Í nýlegri úttekt Samtaka atvinnulífsins, sem Innherji greindi frá, var komist að þeirri afgerandi niðurstöðu að sveitarfélögum þyrfti að fækka verulega.

Borgarstjóri tók undir og sagði sveitarfélögin sum hver alltof veik til að standa undir lögbundinni þjónustu í náinni framtíð. Kjarkleysi pólítíkurinnar og íhaldssemi sumra minni sveitarfélaga stæði nauðsynlegum sameiningum fyrir þrifum.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Borgin fjölgaði starfsfólki um nær 20 prósent á fjórum árum

Starfsfólki hjá Reykjavíkurborg hefur fjölgað um nær 20 prósent á síðustu fjórum árum. Borgarstarfsmönnum hefur því fjölgað mun meira en borgarbúum. Þetta má lesa úr gögnum sem skrifstofa Reykjavíkurborgar tók saman að beiðni Innherja.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×