Viðskipti innlent

Vilja ekki fá alla til sín á gaml­árs­dag

Eiður Þór Árnason skrifar
Engar brennur verða þetta árið á höfuðborgarsvæðinu.
Engar brennur verða þetta árið á höfuðborgarsvæðinu. Vísir/Vilhelm

Björgunarsveitirnar búast við góðri flugeldasölu í ár og hefur sala farið mjög vel af stað í desember. Vel gekk í fyrra og upplifa björgunarsveitarmenn aftur svipaða stemningu í samfélaginu nú þegar tveir stærstu söludagarnir eru fram undan.

Björgunarsveitarmaðurinn Kristinn Ólafsson tekur á móti fólki á sölustað á Malarhöfða og segir Íslendinga nú nýta sér netsöluna sem aldrei fyrr. Sveitirnar séu mjög bjartsýnar á að salan verði góð en um er að ræða mikilvæga fjáröflun fyrir björgunarsveitirnar.

Tuttugu manna samkomutakmörkun er nú í gildi en Kristinn á ekki von á því að hún komi til með að hafa mikil áhrif á starfsemi sölustaða.

„Við erum með stóra staði og skipuleggjum þetta vel en við viljum hvetja fólk til að koma sem fyrst, koma í kvöld og morgun, en ekki allir á gamlársdag. Þannig náum við að dreifa álaginu og allir fá sína flugelda.“

Mikil áskorun að fá flugeldana heim

Faraldurinn hefur haft mikil áhrif á vöruflutning milli heimsálfa í ár og var því ekki alltaf ljóst hvort björgunarsveitirnar myndu fá allar sínar birgðir í tæka tíð frá verksmiðjum í Kína.

„Allir flutningar eru erfiðir í heiminum í dag, þetta var mikil áskorun en hún gekk upp og við erum bara mjög glöð,“ sagði Kristinn í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Árið 2021 var viðburðaríkt fyrir björgunarsveitirnar líkt og önnur ár en viðvera björgunarsveitarmanna við eldgosið í Geldingadölum gerði þá sýnilegri en oft áður.

„Við erum kannski búin að vera í meira návígi við almenning, eins og í gegnum gosið í Geldingadölum og Íslendingar voru mikið að ferðast um landið upp á hálendi svo þeir rekast á okkur víða. Þannig að við erum búin að finna fyrir velvild og eiga samskipti við fólk og það er bara jákvætt.“

Að lokum minnir Kristinn á að mikilvægt sé að nota viðeigandi öryggisbúnað þegar fólk meðhöndlar og fylgist með flugeldum. Þar standa hin þekktu flugeldagleraugu enn fyrir sínu.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×