Umræðan

Er ekki bara best að skrifa skýrslu?

Heiðrún Lind Marteinsdóttir skrifar

Hvað ber framtíðin í skauti sér, er kannski áleitnasta spurning áramóta. Kannski er svarið við henni, að framtíðin byggist svolítið á því sem gert er var í fortíð og gert er í samtíð. Þar er grunnurinn lagður að framtíðinni. Hugsum nokkur ár aftur í tímann. Árið 2009 tók formlega gildi ný regla um hvað veiða mátti mikið af þorski við Ísland. Þessi ákvörðun var erfið en hún hafði góð áhrif, því þorskstofninn hefur stækkað verulega frá þeim tíma. Fiskveiðiárið 2007/2008 var aflamark þorsks 130.000 tonn, en er nú 223.000 tonn. Erfiðar ákvarðanir í fortíð, höfðu áhrif til framtíðar – og eins og til var ætlast. Freistingin er þó alltaf sú, að fórna hagsmunum til langframa til þess að sefa málefni samtíðar. Freistingar í þessum efnum eru til þess að standast þær, sérstaklega þegar viðkvæmt lífríki á í hlut.

Þetta leiðir hugann að öðrum þáttum í íslenskum sjávarútvegi og reyndar fiskeldi líka. Hvað viljum við til framtíðar? Hvaða grunn ætla Íslendingar að leggja og á hverju ætla þeir að byggja í málefnum þessara mikilvægu atvinnugreina, sem til samans mynda tæplega helming vöruútflutnings frá landinu? Í dag telja þessi útflutningsverðmæti 330 milljarða króna. Það er því mikið í húfi að vel takist til í framtíðarverðmætasköpun.

Freistingin er þó alltaf sú, að fórna hagsmunum til langframa til þess að sefa málefni samtíðar.

Því miður virðast stjórnvöld ekki hafa hugmynd um hvert þau vilja að sjávarútvegur stefni. Engin stefna er til – og engin stefnumótun hefur farið fram. Hvaða verðmæti ætlar þessi þjóð að gera úr sjávarauðlindinni til næstu ára og áratuga? Hvernig á að tryggja verðmætasköpun, þróun og framlag til hagvaxtar? Stjórnvöld hafa einfaldlega skilað auðu – og það er ekki við einn stjórnmálaflokk eða eina ríkisstjórn að sakast. Svona hefur þetta verið um langt skeið. Dægurþrasið virðist bera marga ofurliði og sú hugsun verður sjaldan ofan á, að ef engu er sáð í nútíð, sprettur lítið upp í framtíð.

Þarna er verk að vinna. Það þarf skýra framtíðarsýn og öruggar vörður til að vísa leiðina. Í þessu samhengi má nefna yfirgripsmikla og ítarlega skýrslu frá því í maí á þessu ári, sem ber heitið Staða og horfur í íslenskum sjávarútvegiog fiskeldi, sem Sveinn Agnarsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands ritstýrði. Skýrslan var unnin fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Í lokakafla hennar segir meðal annars:

„Aflamarkskerfið, sem íslensk sjávarútvegsfyrirtæki búa við, hvetur útgerðir til að lágmarka kostnað og hámarka aflaverðmæti og frjáls verðmyndun á markaði er útgerðum hvatning til að reyna að fá sem hæst verð fyrir aflann. Íslenskar útgerðir ráða yfir ótímabundnum aflaheimildum og sú staðreynd, ásamt því að veiðar miðast við að hámarka langtímaafrakstur, skapar ákveðinn fyrirsjáanleika í íslenskum sjávarútvegi sem auðveldar fyrirtækjum að ráðast í langtímafjárfestingar og skipuleggja starfsemi sína með hagsmuni til lengri tíma litið.

Því miður virðast stjórnvöld ekki hafa hugmynd um hvert þau vilja að sjávarútvegur stefni. Engin stefna er til – og engin stefnumótun hefur farið fram.

Skýrslan er áhugaverð og í henni er mikill fróðleikur um fiskveiðistjórnunarkerfið, atvinnulíf og samfélag. Efnið hefði því átt að koma að gagni, ef áhugi væri á því af hálfu stjórnvalda að setja skýra stefnu um framtíðarverðmæti úr hafinu. Það felast ótal mörg tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar þegar byggt er á traustum grunni. En þrátt fyrir umfangsmikla skýrslu, sem hefði mátt nýta til grundvallar sjávarútvegsstefnu til næstu 10 eða 20 ára, þá er málaflokkurinn enn látinn reka á reiðanum. Og enn á að skipa nefnd, sem á að skoða, skrifa og skila enn einni skýrslunni. Og tíminn líður. Það má kannski segja, að ef einhver verðmætasköpun yrði til við skýrsluskrif, þá værum við Íslendingar í góðum efnum. Svo er auðvitað ekki og einhvern tíma þarf að hefjast handa við treysta verðmætasköpun til langs tíma, með aðgerðum en ekki orðum.

Þrátt fyrir að stjórnmálamenn hugi lítt að verðmætasköpun í framtíð þegar kemur að sjávarútvegi hefur atvinnugreinin sjálf staðið sína plikt. Fjárfest hefur verið í vélum, tækjum, skipum og búnaði fyrir tugi milljarða króna á hverju ári, undanfarin ár. Sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi ætla ekki að bíða eftir því hvað framtíðin færir þeim. Þau eru í geysi harðri samkeppni á alþjóðlegum markaði og til að standast hana þarf að fjárfesta. Að öðrum kosti er tómt mál að tala um íslenskan sjávarútveg á alþjóðlegum markaði. Fullkomnustu fiskiskip í heimi eru á Íslandi, einnig vinnslur, bæði uppsjávar og bolfisks. Það þurfti ekki opinbera leiðsögn til þess að ráðast í þessar fjárfestingar svo standast mætti framtíðar áskoranir. Þessa leiðsögn veitir hinn svo kallaði markaður, alla daga, þar sem samkeppni ríkir æðst í sessi. Spurningin sem þessi fyrirtæki spyrja sig hins vegar, er sú, er eitthvað á þessu byggjandi? Er óhætt að halda áfram að fjárfesta? Af hverju er framtíðin ekki kortlögð?

Það má kannski segja, að ef einhver verðmætasköpun yrði til við skýrsluskrif, þá værum við Íslendingar í góðum efnum.

Til þess að tryggja verðmætasköpun, samkeppnihæfni eða almenna hagsæld, er það frumskylda stjórnvalda að hlúa að jarðveginum – rekstrarskilyrðunum. Sjávarútvegur stendur frammi fyrir stórum áskorunum; breytingum í hafinu, umhverfisvá, pólitískum sviptingum á stærstu mörkuðum, breyttum neysluvenjum ungs fólks og áfram mætti telja. Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú, að hafa íslensk stjórnvöld og atvinnugreinina í sama liði. Rekstrarskilyrði sem stjórnvöld skapa, verða að vera þannig úr garði gerð að þau tryggi sannanlega verðmætasköpun og samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs. Það þarf meira af skýrum áherslum og aðgerðum – minna af nefndum og skýrslum.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.


Tengdar fréttir

Sterkur sjávarútvegur geti aukið verðmætasköpun um hundruð milljarða

Íslenskur sjávarútvegur hefur þróast mikið á undanförnum árum og stendur sterkt og getur aukið verðmætasköpun sína um hátt í þrjú hundruð milljarða á næstu tíu árum. Þetta er niðurstaða viðamikillar skýrslu sérfræðihóps til sjávarútvegsráðherra sem kynnt var í dag.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.