Innherji

„Við höfum öll fengið góða æfingu í aðlögunarhæfni“

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon.
Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon. Aðsend Mynd

Dagný Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Sky Lagoon, segir að opnun baðlónsins fyrr á árinu hafi verið draumi líkust en fyrsta mánuðinn var uppselt í baðlónið hvern einasta dag.

Hvernig var rekstrarumhverfið á árinu 2021?

„Árið 2021 var í okkar augum hreint út sagt magnað ár. Eftir margra ára undirbúning og einungis 15 mánaða framkvæmdatíma, þá opnuðum við Sky Lagoon 29. apríl. Í upphafi tókum við þá ákvörðun að segja ekkert frá verkefninu opinberlega né birta myndir. Ég held að ástæðan fyrir því að það gekk eftir er að fáum datt það í hug að það væri svona stórt verkefni í fullum gangi í miðjum faraldri. Opnunin var draumi líkast og við erum fyrst og fremst ótrúlega þakklát fyrir viðtökurnar sem við höfum fengið hjá Íslendingum. Ég held að skemmtilegasta endurgjöfin hafi verið frá heimamanni sem líkti þjónustubyggingu Sky Lagoon við skápinn í Narníu sem opnar þér leið að töfraheimi.“

Hvað stóð upp úr?

„Það sem stóð upp úr á árinu er samheldni starfsmanna og metnaður þeirra fyrir upplifun gesta okkar. Við vorum öll frekar ósofin og þreytt þegar við opnuðum en við tók skemmtilegasti mánuður ársins þar sem við vorum með uppselt upp á hvern einasta dag. Við gáfum allt sem við áttum og starfsmenn Sky Lagoon eiga risastórt hrós skilið fyrir starfsgleði og fagmennsku. Reksturinn hefur gengið vel miðað við aðstæður en það er að sjálfsögðu í mörg horn að líta á nýjum stað sem þessum.“

Sky Lagoon er ein af stærstu framkvæmdum í ferðaþjónustu hér á landi síðustu ár.Aðsend mynd

Hver var helsta áskorunin?

„Helsta áskorunin á árinu hefur að sjálfsögðu verið ytra umhverfi með þeirri óvissu sem allir hafa þurft að glíma við. Fyrir utan það þá hafa alls konar mál komið upp á bak við tjöldin. Verkefnið er tæknilega flókið og flækjustig rekstrar miðast við það. En með reynslu og útsjónarsemi þá hefur allt gengið upp.“

Hvernig lítur árið 2022 út frá ykkar bæjardyrum séð?

„Ég ætla að leyfa mér að trúa því að árið 2022 verði gott ár. Það byrjar kannski erfiðlega en það verður góður stígandi í því. Á sama tíma þarf að vera viðbúin öllu. Við höfum öll fengið góða æfingu í aðlögunarhæfni og það verður lykillinn áfram í rekstri félagsins. Ég finn það bara á eigin skinni að þegar það eru svona margar áskoranir í gangi í ytra umhverfi þá finn ég aldrei eins mikla þörf fyrir að leggja frá mér símann, fara ofaní, slaka á og gleyma stað og stund. Þannig hleð ég batteríin. Sama hvernig árið þróast, þá hefur aldrei verið eins mikilvægt að huga að andlegri heilsu og hvort öðru. Með það að leiðarljósi þá verður 2022 gott ár, sama hvað.“


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×