Klinkið

Spekileki frá Landsbankanum?

Ritstjórn Innherja skrifar
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans en útlit er fyrir að bankinn verði sá eini af bönkunum fjórum sem verði í meirihlutaeigu ríkissjóðs áður en langt um líður. 
Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans en útlit er fyrir að bankinn verði sá eini af bönkunum fjórum sem verði í meirihlutaeigu ríkissjóðs áður en langt um líður.  Vísir/Vilhelm

Tíðar mannabreytingar í bankageiranum eru ekki óvanalegar en brotthvarf margra áberandi og háttsettra stjórnenda og starfsmanna í Landsbankanum – allt saman konur – að undanförnu hafa vakið nokkra athygli.

Frá því um mitt þetta ár hafa þannig sex konur, sem í flestum tilfellum gegndu stöðu framkvæmdastjóra eða forstöðumanns, látið af störfum hjá bankanum af ólíkum ástæðum.

Í lok síðasta mánaðar var tilkynnt um að Svana Huld Linnet, sem hafði stýrt fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans frá 2019, hefði hætt og ráðið sig yfir til Arion banka þar sem hún fer fyrir markaðsviðskiptum bankans. Skömmu áður hafði Kristín Erla Jóhannsdóttir látið af störfum sem forstöðumaður eignastýringar til sex ára en vitað var að hún hafði sóst eftir stöðu framkvæmdastjóra Eignastýringar og miðlunar sem var auglýst laus til umsóknar eftir að Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir hætti hjá bankanum í september og tók við sem framkvæmdastjóri Creditinfo á Íslandi. Fyrr á árinu hafði framkvæmdastjóri áhættustýringar til ellefu ára, Perla Ösp Ásgeirsdóttir, sömuleiðis sagt starfi sínu lausu. 

Þá hafa tvær aðrar konur hjá Landsbankanum horfið á braut nýlega frá bankanum og ráðið sig til keppinauta á fjármálamarkaði. Elínborg Kvaran, sem var markaðsstjóri Landsbankans, fór yfir til Arion þar sem hún tekur við starfi forstöðumanns markaðsmála og þjónustuþróunar og þá fór Elísabet Björnsdóttir yfir í fjárstýringu Kviku banka.

Sumir spyrja sig hvort þessi spekileki sé meðal annars til marks um að Landsbankinn, sem verður brátt eini bankinn í meirihlutaeigu ríkissjóðs, eigi erfiðara um vik að fóta sig í samkeppni um hæft starfsfólk gagnvart einkafyrirtækjum. Það á einnig við önnur fjármálafyrirtæki sem geta – ólíkt ríkisbankanum – í sumum tilfellum umbunað lykilstarfsmönnum í formi kaupaukagreiðslna.


Klinkið er vettvangur Innherja þar sem dregin er upp mynd og veitt innsýn í bakherbergi viðskipta, stjórnmála og atvinnulífs á landinu.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×