Viðskipti innlent

„Þetta heldur ekki svona áfram endalaust“

Snorri Másson skrifar
Kristófer Oliversson formaður Samtaka fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu.
Kristófer Oliversson formaður Samtaka fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu. Vísir/Sigurjón

Yfirvofandi samkomutakmarkanir munu að líkindum koma hvað verst niður á skemmtanalífi eins og endranær. Fréttastofa leit við á Röntgen og tók stöðuna, í ljósi þess að þar mega að líkindum ekki fleiri en 20 koma saman á næstu vikum.

Töluverður fjöldi erlendra ferðamanna er þó staddur í Reykjavík yfir hátíðarnar, sem virðist ekki láta samkomutakmarkanir eins mikið á sig fá og Íslendingar. Staðan í ferðaþjónustunni er þó slæm og kallað er eftir heildarsýn frá nýrri ríkisstjórn.

Við getum ekki haldið svona áfram mikið lengur, segja bæði fulltrúar ferðaþjónustu og skemmtanalífs í kvöldfréttum Stöðvar 2: 

Kristófer Oliversson, formaður Félags fyrirtækja í hótel- og gistiþjónustu, telur að um 60% gistirýma séu í nýtingu í Reykjavík. 

Það er langt frá því að vera full sveifla. Greinin er enn í sárum og Kristófer kallar eftir pólitískri leiðsögn með heildarhagsmuni í huga frá nýrri ríkisstjórn.

„Þetta heldur ekki svona áfram endalaust að það sé bara lokað og fólk sett í sóttkví. Á einhverjum tímapunkti erum við búin að fullbólusetja þjóðina og þurfum að fara að taka ákvarðanir út frá því en ekki frá afkastagetu sjúkrahúss sem virðist ekki hafa breyst mikið á þessum tveimur árum,“ segir Kristófer.

Ferðamennirnir sjálfir eru á aðventunni ekki beint með hugann við pólitíska leiðsögn með heildarhagsmuni í huga og eru meira bara að pæla í norðurljósum og kakó. Við ræddum til dæmis við Dastan frá Kasakstan, sem sagði að hann upplifði öryggi á Íslandi - lands sem hann hafi lengi dreymt um að koma til; undarlegt sambland af frosti og funa, eins og þar segir.

Ekki allir komast klakklaust til landsins, heldur mætir á hverjum degi einhver á Keflavíkurflugvöll með ófullnægjandi gögn - gleymir bólusetningarvottorði eða öðru slíku. Frá 1. júní til 15. desember á þessu ári voru skráð 440 slík tilvik í kerfum lögreglu og 27 einstaklingum vísað frá landinu.

Ekki munur á klukkustund til eða frá

Steinþór Helgi Arnsteinsson, einn eigenda Röntgen og viðburðahaldari með meiru, er að halda tónleika í Hörpu á morgun sem hann veit ekki hvort verður af. Þess utan liggur fyrir að starfsemi á skemmtistað hans verður verulega takmörkuð á næstu vikum.

Steinþór Helgi rekur skemmtistaðinn Röntgen.Vísir/Vilhelm

„Það er ótrúlega skrýtið að við séum hérna eftir tvö ár faraldri og að það sé verið að gera sömu hluti en búist við því að það verði önnur niðurstaða,“ segir Steinþór í samtali við fréttastofu.

Steinþór segir engin gögn á bakvið það hvaða áhrif það hafi á faraldurinn að stytta afgreiðslutíma lítillega. Sannarlega muni að hafa opið til hálf fimm eða til miðnættis en klukkustund til eða frá skipti ekki sköpum. 

„Af hverju fáum við þá ekki að hafa opið til eitt með 20 manns í hverju hólfi? Ég held að það myndi ekki breyta neinu,“ segir Steinþór, sem bætir því við að nýjar takmarkanir geti verið náðarhöggið fyrir fjölda rekstraraðila. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×