Handbolti

Aron skoraði sex og lagði upp fjögur í naumum sigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Aron var frábær í kvöld.
Aron var frábær í kvöld. Nordjyske/Henrik Bo

Aron Pálmarsson og félagar hans í Álaborg unnu nauman tveggja marka sigur er liðið tók á móti Fredericia í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag. Lokatölur urðu 32-30, en Aron kom með beinum hætti að tíu mörkum heimamanna.

Gestirnir í Fredericia voru sterkari aðilinn í upphafi leiks og varnarleikur Álaborgarliðsins gekk illa. Fredericia náði mest sex marka forskoti í fyrri hálfleik, en þegar gengið var til búningsherbergja var staðan 15-18.

Aron og félagar voru hins vegar ekki lengi að jafna metin og komast yfir í seinni hálfleik, en við tók þá kafli þar sem að liðin skiptust á að skora. Í stöðunni 25-25 náðu heimamenn þó góðu áhlaupi og skoruðu þrjú í röð og lögðu þar grunninn að sigrinum. Liðið hélt forystu sinni út leikinn og vann að lokum tveggja marka sigur, 32-30.

Eins og áður segir átti Aron virkilega góðan leik í liði Álaborgar, en hann skoraði sex og lagði upp önnur fjögur fyrir liðsfélaga sína. Liðið situr nú í öðru sæti dönsku deildarinnar með 23 stig eftir 14 leiki, fjórum stigum á eftir GOG sem trónir á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×