Innherji

Verðmetur Sjóvá 15 prósentum yfir markaðsgengi

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Rekstur Sjóvár hefur verið ævintýralegur að undanförnu að sögn greinandans.
Rekstur Sjóvár hefur verið ævintýralegur að undanförnu að sögn greinandans. Vísir/Hanna

Verðmatsgengi Sjóvár, samkvæmt greiningu Jakobsson Capital, er 43,4 krónur á hlut en það er tæplega 15 prósentum yfir markaðsgengi tryggingafélagsins. Þetta kemur fram í nýju verðmati Jakobsson Capital. 

Hagnaður af rekstri Sjóvá eftir skatt á fyrstu níu mánuðum ársins 2021 nam 7,4 milljörðum króna samanborið við 2,3 milljarða á sama tíma árið áður. Arðsemi eigin fjár á ársgrunni var 42,3 prósent samanborið við 18 prósent á sama tíma árið áður.

Rekstur Sjóvár hefur verið „ævintýri líkastur“ að sögn greinandans sem bendir á að síðastliðna 12 mánuði hafi hagnaður tryggingafélagsins verið 10,4 milljarðar króna og arðsemi eigin fjár nærri 50 prósent.

Hagnaður af fjárfestingarekstri nam 6.132 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins en á sama tíma árið áður var hagnaður upp á 1.486 milljónir. Fjárfestingareignir á móti iðgjöldum eru nú 2,4 en voru 2,2 á sama tíma í fyrra.

„Það telst mjög hraustlegt þegar að eignir eru meira en tvisvar sinnum hærri,“ segir í verðmatinu. Greinandinn bendir á að þótt enginn hagnaður sé af tryggingarrekstri þurfi ávöxtun eignasafns ekki að vera ýkja há til að Sjóvá nái viðunandi arðsemi á eiginfé eða arðsemi sem er jöfn ávöxtunarkröfu á eigið fé. 

Ávöxtunarkrafa á eigið fé er 10,2 prósent og þyrfti ávöxtun eignasafns að vera 5 prósent á nafngrunni til að ná því.

„Hér er þó rétt að hafa í huga að tryggingarrekstur félagsins skilar ágætis hagnaði og skilar einn og sér um 10 prósenta arðsemi á eigið fé,“ bætir hann við.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×