Innherji

Borgin fjölgaði starfsfólki um nær 20 prósent á fjórum árum

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. VÍSIR/VILHELM

Starfsfólki hjá Reykjavíkurborg hefur fjölgað um nær 20 prósent á síðustu fjórum árum. Borgarstarfsmönnum hefur því fjölgað mun meira en borgarbúum. Þetta má lesa úr gögnum sem skrifstofa Reykjavíkurborgar tók saman að beiðni Innherja.

Fjöldi stöðugilda innan A-hluta Reykjavíkurborgar, sem fjármagnaður er með skatttekjum, hefur að meðaltali verið 8.295 það sem af er ári en til samanburðar var meðalfjöldi stöðugilda 6.836 yfir sama tímabil árið 2017. Þannig hefur stöðugildum fjölgað um 21 prósent á fjórum árum.

Sömu þróun má sjá í fjölda starfsmanna innan A-hluta Reykjavíkurborgar. Meðalfjöldi starfsmanna á þessu ári nemur 11.123 samanborið við 9.346 starfsmenn yfir sama tímabil árið 2017. Hefur starfsmönnum borgarinnar því fjölgað um 19 prósent.

Borgarbúum hefur ekki fjölgað nærri því jafn mikið og starfsmönnum Reykjavíkurborgar en samkvæmt tölum Hagstofunnar fjölgaði borgarbúum um 8 prósent á milli áranna 2017 og 2021.

Fjölgun borgarstarfsmanna hefur verið sérstaklega mikil eftir að kórónuveiran gerði vart við sig í upphafi síðasta árs. Á milli áranna 2017 og 2019 var fjölgun íbúa í kringum 2 prósent á hverju ári en fjölgun starfsmanna og stöðugilda var um og yfir 3 prósentum.

Stöðugildum fjölgaði síðan um 5 prósent árið 2020 og 8 prósent árið 2021, og starfsmönnum um 6 prósent og 5 prósent.

Innherji greindi í síðustu viku frá samantekt Samtaka atvinnulífsins þar sem fram kom að starfsfólki á almennum vinnumarkaði hefði fækkað um 5.500, eða fjögur prósent, á milli septembermánaða 2017 og 2021, en starfsfólki hjá hinu opinbera fjölgað um tæplega 7 þúsund.

Skiptingin hjá hinu opinbera var þannig að fjölgunin var 2.400 hjá ríkinu en 4.300 hjá sveitarfélögunum.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.