Innherji

Strangari reglur hjá Seðlabankanum en ráðuneytinu í útboði Íslandsbanka

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Starfsmenn Seðlabankans skulu að jafnaði eiga fjármálagerninga sem þeir kaupa í þrjá mánuði að lágmarki, fari markaðsverð ekki niður fyrir upphaflegt kaupverð.
Starfsmenn Seðlabankans skulu að jafnaði eiga fjármálagerninga sem þeir kaupa í þrjá mánuði að lágmarki, fari markaðsverð ekki niður fyrir upphaflegt kaupverð. Samsett mynd

Engum starfsmanni Seðlabanka Íslands var heimilt að taka þátt í hlutafjárútboði Íslandsbanka en langflestum starfsmönnum fjármála- og efnahagsráðuneytisins var heimilt að kaupa bréf í útboði bankans, að því gefnu að þær byggju ekki yfir innherjaupplýsingum. Þetta kemur fram í svari stofnananna við fyrirspurnum Innherja.

Starfsmönnum fjármála- og efnahagsráðuneytisins ber að óska eftir óska eftir heimild regluvarðar áður en viðskipti með fjármálagerninga eiga sér stað og rökstyðja að þeir búi ekki yfir innherjaupplýsingum.

Í svari ráðuneytisins kemur fram að starfsmennirnir sem báru ábyrgð á hlutafjárútboði Íslandsbanka hafi sammælst um að taka ekki þátt í útboðinu.

„Hvað varðar útboðið á hlutum í Íslandsbanka ákváðu og sammæltust ráðherra, ráðuneytisstjóri, aðstoðarmenn, skrifstofustjóri og sérfræðingur sem báru ábyrgð á verkefninu að þeir myndu ekki taka þátt í útboðinu, óháð því hvort þeir teldust hafa stöðu innherja.“

Um viðskipti starfsmanna Seðlabanka Íslands gilda strangari reglur. Starfsmönnum bankans er óheimilt að eiga beint eða óbeint viðskipti með hlutabréf, skuldabréf og fjármálagerninga tengda þeim, sem útgefin eru af eftirlitsskyldum aðilum.

Bannið nær því til fyrirtækja í fjármálageiranum, svo sem banka og tryggingafélaga, og af þeim leiddi að starfsmönnum Seðlabankans var óheimilt að taka þátt í hlutafjárútboði Íslandsbanka.

Útboð Íslandsbanka var hið stærsta sem haldið hefur verið hér á landi og umframeftirspurn reyndist níföld. Hluthafar voru um 24 þúsund talsins við skráningu í Kauphöllina en hefur síðan þá fækkað um liðlega sjö þúsund.

Starfsmönnum Seðlabankans er þó heimilt að selja fjármálagerninga eftirlitsskyldra aðila em aflað hefur verið áður en viðkomandi hóf störf hjá bankanum.

Um aðra innlenda fjármálagerninga, til dæmis hlutabréf, gildir að starfsmönnum Seðlabankans ber að gera regluverði fyrirfram grein fyrir viðskiptum slíka auk þess sem gerð er sú krafa til starfsmanna að þeir skuli að jafnaði eiga fjármálagerninga sem þeir kaupa í þrjá mánuði að lágmarki, fari markaðsverð ekki niður fyrir upphaflegt kaupverð.

Hvað kaup á erlendum hlutabréfum varðar skulu starfsmenn Seðlabankans ekki stunda viðskipti sem gætu með réttu gefið „tilefni til tortryggni“ að því er varðar meðferð og notkun upplýsinga sem þeir öðlast í störfum sínum, eða geta skaðað trúverðugleika bankans.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×