Veðurviðvaranir taka gildi á höfuðborgarsvæðinu klukkan 10 og gilda þar til klukkan 18 í kvöld. Búast má við suðaustan stormi eða hvassviðri og 15 til 23 metrum á sekúndu. Hvassast er í efri byggðum og á Kjalarnesi. Varað er við því að lausir munir geti fokið og þá muni hlýna með rigningu síðdegis, þannig að talsverð hálka gæti myndast á vegum.
Á Suðurlandi taka viðvaranir gildi klukkan 10 og er varað við suðaustanátt, 15 til 25 metrum á sekúndu en vindhviður við fjöll gætu farið upp í 40 metra á sekúndu, til dæmis undir Eyjafjöllum. Fólk er varað við því að vera á ferðinni nema það sé nauðsynlegt, varasamt geti verið fyrir ökutæki sem eru viðkvæm fyrir vindi að vera á ferð.
Á Faxaflóa taka viðvaranir gildi núna klukkan 9 og við Breiðafjörð klukkan 8 og er gert ráð fyrir svipuðu veðri og á Suðurlandi og varað er við vindhviðum við Hafnarfjall, Kjalarnes og á Snæfellsnesi.
Norðar á landinu, á Vestfjörðum, á Ströndum og Norðurlandi vestra, taka viðvaranir gildi klukkan 15 síðdegis. Gert er ráð fyrir suðaustan 15 til 23 metrum á sekúndu og gætu vindstrengir náð 35 metrum við fjöll. Búist er við úrkomu og skafrenningi á Vestfjörðum.
Viðvaranir hafa þegar tekið gildi á Miðhálendinu en þar er jafnvel verra veður en í byggð, 20 til 25 metrar í vindi en hvassast í vindstrengjum við fjöll og hviður um 45 metrar á sekúndu. Snjókoma og lélegt skyggni.