Viðskipti innlent

Meðal­fjöl­skylda muni verja 239 þúsund í jóla­inn­kaupin

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikill annatími er fram undan í verslunarkjörnum landsins.
Mikill annatími er fram undan í verslunarkjörnum landsins. Vísir/Vilhelm

Rannsóknarsetur verslunarinnar (RSV) spáir því að hver Íslendingur muni verja 59.715 krónum til jólainnkaupa í nóvember og desember. Það gera rúmlega 238.800 krónur fyrir fjögurra manna fjölskyldu.

Spáir RSV að jólaverslun muni aukast um 3,86% frá síðasta ári og að aukningin nemi um 0,1% að raunvirði. Í fyrra jókst velta smávöruverslana yfir jólamánuðina um 17,4% eða um tæplega 16,4 milljarða króna að nafnvirði miðað við sama tímabil árið 2019. Samkvæmt gögnum um virðisaukauppgjör Hagstofu Íslands hækkaði jólavelta mest árið 2011 þegar hún jókst um 7,9%.

Að mati RSV eru horfur á góðri jólaverslun í ár en verðlækkanir, vöruskortur og vandræði tengd faraldrinum muni þó líklega hafa þær afleiðingar að aukningin verði minni en annars. Þetta kemur fram í nýrri samantekt RSV um jólaverslun.

Telja að verslað verði fyrir 136 milljarða króna

RSV spáir því að velta í smásöluverslun í nóvember og desember þetta árið verði um rúmir 136 milljarðar króna með virðisaukaskatti. Þar af eru rúmir 22 milljarðar umfram meðaltal annarra mánaða ársins og má ætla að þeir séu vegna jólainnkaupa.

Samkvæmt netkönnun sem framkvæmd var af Prósent í byrjun nóvembermánaðar sögðust 20% aðspurðra ætla að verja 10 til 49 þúsund krónum í jólagjafir í ár og 29% sögðust ætla að verja 50 til 99 þúsund krónum.

RSV gaf ekki út spá um jólaverslun í fyrra en gögn benda nú til að kórónuveirufaraldurinn hafi í lang flestum tilvikum haft jákvæð áhrif á innlenda verslun.

Leiða má líkur að því að aukna veltu í innlendri verslun á árinu megi að hluta rekja til samkomu-og ferðatakmarkana vegna faraldursins. Að sögn RSV kemur sú aukning líklega til bæði vegna tilfærslu á milli innlendrar og erlendrar verslunar en einnig vegna þess að framboð á afþreyingu og öðru sem neytendur hafa vanalega kost á að verja fjármunum sínum í hafi dregist saman.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×