Innherji

Stefnir í slag kvenna um ritaraembætti Sjálfstæðisflokks

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Áslaug Hulda Jónsdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir og Ásthildur Sturludóttir eru meðal þeirra sem eru orðaðar við framboð til ritara.
Áslaug Hulda Jónsdóttir, Berglind Ósk Guðmundsdóttir, Diljá Mist Einarsdóttir og Ásthildur Sturludóttir eru meðal þeirra sem eru orðaðar við framboð til ritara.

Þau tíðindi urðu við stjórnarskiptin að staða ritara í forystusveit Sjálfstæðisflokksins losnar eftir að Jón Gunnarsson tók við embætti innanríkisráðherra. Samkvæmt heimildum Innherja stefnir í æsispennandi slag milli öflugra kvenna innan flokksins um ritarann. Samkvæmt reglum Sjálfstæðisflokksins getur ritari ekki setið sem ráðherra.

Áslaug Hulda Jónsdóttir bæjarfulltrúi í Garðabæ og formaður bæjarráðs, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri á Akureyri, þingmennirnir Diljá Mist Einarsdóttir, Bryndís Haraldsdóttir og Berglind Ósk Guðmundsdóttir auk Hildar Björnsdóttur borgarfulltrúa eru meðal þeirra sem nefndar eru sem eftirmenn Jóns í forystu Sjálfstæðisflokksins.

Þá hefur Vala Pálsdóttir, formaður Landssambands Sjálfstæðiskvenna, einnig verið orðuð við framboð.

Áslaug Hulda tapaði ritaraslagnum með fáum atkvæðum fyrir rúmum tveimur árum, en hún bauð sig fram fimm dögum fyrir flokksráðsfundinn þar sem Jón hafði að lokum sigur. Áslaug Hulda ræddi í aðdraganda ritarakjörsins þá um hversu mjög vantaði rödd sveitarstjórna inn í forystusveit flokksins.

Viðmælendur Innherja færa sumir hverjir rök fyrir því Áslaug hafi nokkuð til síns mál hvað það varðar. Þá hefur flokksforystan verið nokkuð gagnrýnd fyrir að hlusta ekki nægilega vel eftir sjónarmiðum landsbyggðarinnar í flokknum. Þær raddir heyrast nú enn hærri eftir að Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Suðurkjördæmis var ekki gerð að ráðherra heldur Jón við endurnýjun stjórnarsamstarfsins sem kynnt var landsmönnum í gær.

Tvær leiðir eru færar til þess að kjósa um nýjan ritara samkvæmt reglunum. Það er annað hvort gert á flokksráðsfundi eða landsfundi. Eftir því sem Innherji kemst næst hefur enginn slíkur fundur verið boðaður enn. Lengi hefur verið á dagskrá að halda landsfund en kórónaveiran hefur sett strik í reikninginn. Kunnugir innan flokksstarfsins segja líklegt að flokksráðsfundur verði boðaður á næstunni ef fresta eigi landsfundi enn um sinn.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×