Innherji

Þessum er treyst fyrir áherslumálum ríkisstjórnarinnar

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Þetta eru þeir ráðherrar sem viðmælendur Innherja nefndu að færu fyrir áherslumálum ríkisstjórnarinnar.
Þetta eru þeir ráðherrar sem viðmælendur Innherja nefndu að færu fyrir áherslumálum ríkisstjórnarinnar.

Viðmælendur Innherja sem erum öllum hnútum kunnugir innan stjórnarflokkanna þriggja eru sammála um að í nýundirrituðum stjórnarsáttmála Vinstri grænna, Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins fái allir flokkarnir þrír eitthvað fyrir sinn snúð.

Mikil áhersla er lögð á loftslags- og orkumál og tækifæri í nýsköpun og hugverkadrifnu hagkerfi, en ný og viðamikil ráðuneyti þessara mála falla bæði í skaut Sjálfstæðismanna. Þau eru Guðlaugur Þór Þórðarson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir. 

Þá vakti athygli viðmælenda Innherja að formaður Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Benediktsson, lét hafa eftir sér við undirritun stjórnarsáttmálans í gær að hann sjálfur væri opinn fyrir því að gera breytingu og skipta um ráðuneyti á kjörtímabilinu. Auk þess liggur fyrir að Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti flokksins í Suðurkjördæmi, kemur til með að taka við dómsmálaráðuneytinu af Jóni Gunnarssyni þegar líður á tímabilið.

Hálendisþjóðgarður verður ekki en Guðmundur með veigamikil mál

Málefni vinnumarkaðarins eru einnig veigamikil í sáttmálanum, en þau verða undir forystu VG og Guðmundar Inga Guðbrandssonar á tímabilinu auk félagsmálanna. Í sáttmálanum eru auk þess í fyrsta sinn í langan tíma lagðar línur um hvernig eigi að breyta örorku- og lífeyriskerfinu. Guðmundur getur vel við unað þó hugmyndum hans um hálendisþjóðgarð hafi verið kastað fyrir róða í sáttmálanum. Þá eru græn fingraför forsætisráðherra á feykimörgum málefnum sem tæpt er á í sáttmálanum augljós.

Af samtölum að dæma við innanbúðarfólk innan Vinstri grænna kom einnig til greina að Svandís Svavarsdóttir tæki við vinnumarkaðs- og félagsmálunum fyrir hönd flokksins. Horfið var frá þeirri hugmynd í ljósi þess að fortíð Guðmundar, sem framkvæmdastjóri Landverndar, og embættisverk hans í stóli umhverfisráðherra undanfarin fjögur ár væru ekki til þess fallin að slá sáttatón í samskiptum stjórnvalda og landbúnaðar.

Risastórt innviðaráðuneyti auk heilbrigðismálanna

Húsnæðismarkaðurinn, málefni sveitarfélaga og fyrirhuguð uppbygging samgangna fellur svo Framsóknarmönnum í skaut í nýju innviðaráðuneyti sem formaður flokksins fer fyrir. Bætt verður allverulega í uppbyggingu innviða sem verður fjármagnað með frekari sölu eignarhluta í bönkunum auk þess sem nefnt er í sáttmálanum að horfa þurfi til þess hvernig auka megi þátttöku lífeyrissjóðanna í innviðafjárfestingum. 

Ekki þarf að fjölyrða um vægi heilbrigðismála í þjóðarsálinni, en við stjórnartaumunum í heilbrigðisráðuneytinu tekur annar Framsóknarmaður, Willum Þór Þórsson. Til stendur meðal annars að setja stjórn yfir spítalann auk þess sem Sjúkratryggingar Íslands verði „efldar sem kaupandi og kostnaðargreinandi heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins.”

Sáttmálinn opinn til túlkana

Þeir sem Innherji ræddi við sammæltust flestir um að enginn bæri sérstaklega skarðan hlut frá borði við stjórnarmyndunina. Sáttmálinn væri frekar almennt orðaður og líkt og á síðasta kjörtímabili myndu stefnur og straumar í málaflokkum ráðast að miklu leyti á túlkun ráðherra þeirra á sáttmálanum. 


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Fyrsti fundur nýrrar ríkisstjórnar

Ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs kom saman á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag. Ráðherrar ríkisstjórnarinnar fjölgar um einn frá síðustu ríkisstjórn og eru tólf.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.