Innherji

Áhyggjur af nýju afbrigði lita hlutabréf í Kauphöllinni

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Nýja afbrigðið hefur haft sérstaklega mikil áhrif á hlutabréfaverð flugfélaga. Icelandair lækkaði um ríflega 5 prósent.
Nýja afbrigðið hefur haft sérstaklega mikil áhrif á hlutabréfaverð flugfélaga. Icelandair lækkaði um ríflega 5 prósent. VÍSIR/VILHELM

Úrvalsvísitalan lækkaði um ríflega 2 prósent þegar opnað var fyrir viðskipti í Kauphöllinni í dag. Lækkunin í Kauphöllinni er í takt við lækkanir á hlutabréfamörkuðum um allan heim en þær endurspegla áhyggjur fjárfesta af nýju afbrigði kórónuveirunnar.

Hlutabréf Icelandair hafa lækkað um 5,3 prósent og hlutabréf í Play um 2,8 prósent. Þá hafa bréf Regins lækkað um ríflega 3 prósent og bréf VÍS um tæplega 3 prósent.

Kári Stefánson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði í samtali við Reykjavík Síðdegis í gær að vísbendingar væru um að nýtt afbrigði SARS-CoV-2 væri meira smitandi og líklegra til að komast hjá ónæmisvörnum líkamans. Hins vegar hefði það ekki verið sannað enn sem komið er.

Staðfest hafa verið 77 tilvik í Suður-Afríku, fjögur í Botswana og eitt í Hong Kong en þar var um að ræða ferðalang sem var að koma frá Suður-Afríku.

Evrópska Stoxx 600 vísitalan féll um 3,1 prósent í fyrstu viðskiptum og FTSE 100 í London féll um 3,2 prósent. 

Lækkanir á hlutabréfum fyrirtækja sem tengjast flugbransanum voru áberandi. IAG, móðurfélag British Airways, lækkaði um 16 prósent og hreyflaframleiðandinn Rolls Royce lækkaði um 12 prósent.

Yfirvöld í Bretlandi hafa ákveðið að setja takmarkanir á ferðamenn frá ákveðnum löndum í Suður-Afríku vegna ótta við nýja afbrigðið. Flug frá tilgreindum löndum til Bretlands verður lagt niður.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.