Innherji

Risastór gullæð gæti leynst á leitarsvæði Íslendinga á Grænlandi

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Frá einu af leitarsvæðum AEX Gold.
Frá einu af leitarsvæðum AEX Gold. Mynd/AEX Gold.

Niðurstöður rannsókna AEX Gold, sem sérhæfir sig í gullgreftri á Suður-Grænlandi og er að töluverðu leyti í eigu Íslendinga, benda til þess að á einu svæði sem fyrirtækið hefur leyfi til að starfa á megi finna nokkrar milljónir únsa af gulli. Það er mun meira magn en almennt má búast við þegar leitað er eftir gulli.

Fyrir tveimur árum fann AEX Gold gull á yfirborði svæðisins Tartoq. Magnið var töluvert, um 106 grömm á hvert tonn, en að meðalmagnið á þeim svæðum sem eru nýtt til gullgreftrar er um 1 gramm á hvert tonn.

Næsta skref var að gera rafsegulmælingar en þá er rafsegulstraumi skotið niður í jörðina til þess að kortleggja jarðlögin og samsetningu þeirra.

„Við teljum að mögulega megi finna nokkrar milljónir únsa af gulli á þessu svæði. Þetta eru mjög jákvæðar niðurstöður,“ segir Eldur Ólafsson, stofnandi og forstjóri AEX Gold. „Meðalmagnið sem menn finna almennt í dag er undir milljónum únsa.“

Virði gullæðarinnar gæti því hlaupið á milljörðum Bandaríkjadala miðað við heimsmarkaðsverðið á únsu af gulli sem er nálægt 1800 dölum. 

Verkefnið framundan er að bora niður í jörðina til þess að sannreyna gullmagnið. Það gæti hins vegar tekið hátt í sjö ár af rannsóknum, leyfisumsóknum og uppbyggingu áður en hægt verður að starfrækja námu á fullum afköstum.

AEX Gold er með leyfi til rannsókna og vinnslu á 10 svæðum á Suður-Grænlandi. Á þremur má finna merki um gullæðar en á hinum eru vonir bundnar við vinnslu á öðrum góðmálum, svo sem kopar. Þá vinnur AEX Gold að því að koma gullnámu sem fyrirtækið keypti árið 2015 í gagnið.

Gullmagnið í námunni er um 250 þúsund únsur en miðað við heimsmarkaðsverð gulls er virði gullæðarinnar um 465 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði um 60 milljarða króna.

„Við erum að horfa til þess að byrja vinnslu á næstu árum. Við ætluðum að byrja í lok þessa árs en heimsfaraldurinn setti strik í reikninginn,“ segir Eldur.

AEX Gold er skráð í tvo hlutabréfamarkaði, annars vegar í Toronto í Kanada og hins vegar í London, en markaðsvirði félagsins er ríflega 10 milljarðar króna. Á meðal stærstu hluthafanna eru breskir og bandarískir fjárfestingasjóðir en einnig ríkisreknir sjóðir í Danmörku og Grænlandi.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×