Neytendur

Lands­bankinn hækkar vexti

Eiður Þór Árnason skrifar
Landsbankinn er fyrstur stóru viðskiptabankanna til að kynna vaxtabreytingar í kjölfar síðustu stýrivaxtahækkunar. 
Landsbankinn er fyrstur stóru viðskiptabankanna til að kynna vaxtabreytingar í kjölfar síðustu stýrivaxtahækkunar.  Vísir/Vilhelm

Landsbankinn hækkar breytilega vexti á óverðtryggðum íbúðalánum um 0,35 prósentustig í kjölfar vaxtaákvörðunar Seðlabankans.

Fastir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum til þriggja ára hækka um 0,30 prósentustig og um 0,25 prósentustig á óverðtryggðum íbúðalánum til fimm ára. Vextir á verðtryggðum íbúðalánum, bæði breytilegir og fastir, haldast óbreyttir.

Þetta kemur fram á vef Landsbankans en peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði stýrivexti um um 0,50 prósentustig þann 17. nóvember. Standa meginvextir Seðlabankans nú í tveimur prósentum. Vaxtaákvörðun Landsbankans tekur einnig mið af vöxtum af markaði og öðrum fjármögnunarkjörum Landsbankans.

Í kjölfar breytinganna verða breytilegir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum hjá Landsbankanum 4,20%. Lægstu fastir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum verða 4,65%.

Hækka innlánsvexti

Kjörvextir á óverðtryggðum útlánum hækka um 0,35 prósentustig en kjörvextir á verðtryggðum útlánum verða óbreyttir. Breytilegir vextir óverðtryggðra lána vegna bíla- og tækjafjármögnunar hækka um 0,35 prósentustig. Yfirdráttarvextir hækka um 0,50 prósentustig.

Vextir á óverðtryggðum sparireikningum hækka um allt að 0,50 prósentustig, vextir á reikningum með föstum vöxtum hækka um 0,50 prósentustig og vextir almennra veltureikninga hækka um 0,05 prósentustig. Ný vaxtatafla bankans tekur gildi á morgun, 25. nóvember.


Tengdar fréttir

Ásókn í breytilega vexti hefur ekki verið minni síðan í byrjun árs 2019

Í október voru 85 prósent nýrra íbúðalána til heimila með föstum vöxtum en einungis 15 prósent með breytilegum vöxtum. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Seðlabanka Íslands um útlán í bankakerfinu. Veiting íbúðalána með breytilegum vöxtum hefur ekki verið minni frá því í janúar 2019.

Spá því að fólk snúi aftur í verð­tryggð hús­næðis­lán

Árshækkun húsnæðis hefur ekki mælst meiri frá því í október 2017 og er raunverð húsnæðis nú í sögulegum hæðum. Húsnæðisverð hefur því hækkað um 4,3% síðustu þrjá mánuði og um 17,1% undanfarna tólf mánuði, samkvæmt nýjum tölum Þjóðskrár.

Telja að stýrivextir nái 4,25 prósentum árið 2023

Efnahagsbatinn er hafinn af fullum krafti og horfur eru á kröftugum hagvexti á þessu og næsta ári. Reiknað er með samfelldum hagvexti næstu þrjú árin, 5,5% á næsta ári, 1,7% árið 2023 og 2% árið 2024. Áætlað er að verg landsframleiðsla nái sama stigi og fyrir faraldurinn undir lok næsta árs.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.