Innherji

Fjárfestingafélag í sjávarútvegi á leið í Kauphöllina

Hörður Ægisson skrifar
Bluevest Capital áformar skráningu á First North-markaðinn á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.
Bluevest Capital áformar skráningu á First North-markaðinn á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.

Félagið Bluevest Capital Partners, sem var stofnað af Kviku banka og bresku viðskiptafélögunum Mark Holyoke, stærsta hluthafi Iceland Seafood og stjórnarmanns 2010 til 2019, og Lee Camfield, fyrrverandi framkvæmdastjóra rekstrar hjá Ice­land Seafood, setur nú stefnuna á skráningu á First North hlutabréfamarkaðinn í Kauphöllina í byrjun næsta árs.

Félagið, sem mun einkum horfa til þess að fjárfesta í litlum og meðalstórum fiskvinnslufyrirtækjum í Evrópu, er að klára fjármögnun upp á liðlega 25 milljónir evra, jafnvirði um 3,8 milljarða íslenskra króna, í nýtt hlutafé í aðdraganda skráningarinnar, samkvæmt heimildum Innherja. Þriðjungur fjármagnsins kemur frá stofnendum Bluevest Capital – Kviku banka og þeim Mark og Lee – en aðrir fjárfestar eru aðallega innlendir fjársterkir einstaklingar, verðbréfasjóðir og tryggingafélög.

Hlutaféð sem Bluevest er nú að tryggja sér verður nýtt til að fjármagna fyrstu kaup félagsins, sem eru áformuð á fyrsta ársfjórðungi næsta árs, og strax í kjölfarið verði það skráð á First North markaðinn. Samhliða þeirri skráningu, að sögn þeirra sem þekkja vel til, gera áætlanir félagsins ráð fyrir því að sækja sér jafnframt um 10 milljónir evra til viðbótar í nýtt hlutafé.

Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri dótturfélags Kviku í Bretlandi, leiðir verkefnið fyrir hönd bankans en hann situr í fjárfestingarráði Bluevest Capital ásamt meðal annars Mark, Lee og Benedikt Sveinssyni, fyrrverandi forstjóra og stjórnarmanni hjá Iceland Seafood til margra ára.

Gunnar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Kviku í Bretlandi,

Bluevest Capital mun leitast eftir því í fjárfestingum sínum að eignast ráðandi hlut eða meirihluta í fyrirtækjum þar sem tækifæri eru til sameininga og hagræðingar á markaði sem einkennist af sundurleitni og minni fyrirtækjum.

Fyrirtækjum fjölgar á First North

First North markaðurinn er hugsaður fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki sem vilja skrá hlutabréf sín til viðskipta innan Kauphallarinnar með einfaldari hætti og minni tilkostnaði en fylgir skráningu á aðalmarkað.

Það sem af er þessu ári hafa tvö félög verið skráð á First North, flugfélagið Play og tölvuleikafyrirtækið Solid Clouds, en auk þess voru Síldarvinnslan og Íslandsbanki skráð á aðalmarkað. Þá greindi Innherji frá því í liðinni viku að Ölgerðin, stærsti drykkjarvöruframleiðandi landsins, hefði tekið stefnuna á skráningu á hlutabréfamarkað á næsta ári, að líkindum á öðrum ársfjórðungi. Af því tilefni var nýlega gengið frá ráðningu á Kviku banka til að hafa umsjón með skráningarferlinu.

Lágt vaxtastig hefur ýtt verulega undir veltu og verðhækkanir á hlutabréfamarkaði á síðustu misserum og fleiri fyrirtæki hafa af þeim sökum horft til þess möguleika að fara á markað.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Forstjóri Kviku: „Við erum rétt að byrja“

„Kvika hefur stækkað úr litlu félagi upp í eitt af stærstu félögum landsins. Þrátt fyrir það er markaðshlutdeild okkar lítil víða. Félagið er fjárhagslega sterkt og tækifærin til þess að auka samkeppni eru víða. Við erum rétt að byrja,“ segir Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×