Innherji

Björgólfur Thor á von á 50 milljörðum fyrir hlut sinn í ítölsku fjarskiptafélagi

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Björgólfur Thor hefur verið umsvifamikill á sviði fjarskipta.
Björgólfur Thor hefur verið umsvifamikill á sviði fjarskipta. vísir/getty

Alþjóðlega fjárfestingafélagið KKR hefur gert yfirtökutilboð í Telecom Italia, stærsta fjarskiptafélag Ítalíu. Ef yfirtakan verður samþykkt af hluthöfum og ítölskum stjórnvöldum verður hún ein stærsta framtaksfjárfesting evrópskrar viðskiptasögu en Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, er í hópi stærstu hluthafa fjarskiptarisans með tæplega 3 prósenta hlut.

Yfirtökutilboðið, sem nemur alls 33 milljörðum evra með yfirtöku á skuldum ítalska fjarskiptafélagsins sem er skráð á markað, verðmetur félagið á 10,7 milljarða evra. Það er 45 prósentum hærra en gengi félagsins var þegar mörkuðum var lokað á föstudaginn. Samkvæmt því er hlutur Björgólfs Thors metinn á ríflega 320 milljónir evra, sem samsvarar um 48 milljörðum króna. 

Novator hefur verið hluthafi i Telecom Italia um nokkurra ára skeið, eða að minnsta kosti frá árinu 2017 þegar félagið studdi vogunarsjóðinn Elliott Managment Corporation í slag hans við franska fjárfestingafélagið Vivandi, sem er stærsti hluthafi Telecom Italia. En í október 2020 greindu ítalskir fjölmiðlar frá því að hlutur Novator, í gegnum væri kominn upp í 3 prósent.

Rekstur Telecom Italia, sem var verðmætasta fjarskiptafélag Evrópu á tíunda áratugnum, hefur gengið brösuglega. Áður en fréttirnar af tilboðinu bárust hafði gengi ítalska félagsins lækkað um fjórðung frá júní og nær tvo þriðju frá árinu 2018. KKR á nú þegar 37,5 prósenta hlut í dótturfélagi Telecom Italia sem heldur utan um innviði félagsins en hefur nú gert tilboð í fyrirtækið í heild sinni með það fyrir augum að taka það af markaði.

Rekstur Telecom Italia hefur gengið brösuglega á síðustu árum.vísir/getty

Tilboð KKR er enn eitt merkið um áhuga framtakssjóða á evrópskum fjarskiptafélögum. Eins og kunnugt er hefur bandaríska félagið Digital Colony náð samkomulagi við Sýn um kaup á innviðum þess og jafnframt hefur franska félagið Ardian náð samkomulagi við Símann um kaup á Mílu.

Samkvæmt heimildum Financial Times er KKR tilbúið að skipta Telecom Italia í tvennt; innviði og þjónustu, og leyfa ríkisrekna fjárfestingabankanum Cassa Depositi e Prestiti að fara með ráðandi hlut í innviðafélaginu. Að því leyti væri yfirtakan á Telecom Italia ólík nýlegum yfirtökum á evrópskum fjarskiptafélögum þar sem framtakssjóðir hafa séð tækifæri í eignarhaldi á fjarskiptainnviðum.

Björgólfur Thor hefur verið umsvifamikill á sviði fjarskipta. Árið 2007 eignaðist Novator meirihluta í pólska félaginu Play sem var skráð á markað tíu árum seinna og er í dag eitt stærsta fjarskiptafélag Póllands. Í fyrra seldi Novator eftirstandandi fimmtungshlut í Play fyrir fleiri tugi milljarða króna.

Novator stofnaði einnig íslenska félagið Nova árið 2007 sem er nú á meðal þriggja stærstu fjarskiptafélaga landsins. Novator seldi helmingshlut árið 2016 fyrir 16 milljarða og restina fyrr á þessu ári.

Þá fór Novator inn á fjarskiptamarkaðinn Síle árið 2015 með kaupum á WOM, sem náði að hrifsa til sín töluverða markaðshlutdeild á skömmum tíma, og í fyrra boðið fjárfestingafélag Björgólfs Thors markaðssókn í Kólumbíu eftir kaup á Avantel.


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×