Viðskipti innlent

Fyrstu kaup­endur hafa aldrei verið fleiri

Atli Ísleifsson skrifar
Samhliða hlutfallslegri fjölgun fyrstu kaupenda hefur meðalaldur þeirra lækkað.
Samhliða hlutfallslegri fjölgun fyrstu kaupenda hefur meðalaldur þeirra lækkað. Vísir/Vilhelm

Tæplega 34 prósent allra kaupenda íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu á þriðja ársfjórðungi voru að kaupa sína fyrstu íbúð. Hlutfallið hefur aldrei verið hærra.

Frá þessu segir í Hagsjá Landsbankans, en fjöldi fyrstu kaupenda var 983 talsins og dróst örlítið saman frá síðustu ársfjórðungum. Met hafi verið slegið á fyrsta fjórðungi þessa árs þegar alls 1.354 einstaklingar hafi keypt sína fyrstu fasteign ýmist einir eða með öðrum.

„Nokkuð áberandi aukning sást á fjölda og hlutfalli fyrstu kaupenda þegar heimsfaraldurinn skall á, enda lækkuðu vextir á sama tíma og sparnaður margra og kaupmáttur jókst.

Samhliða hlutfallslegri fjölgun fyrstu kaupenda hefur meðalaldur þeirra lækkað. Á öðrum ársfjórðungi í fyrra, þegar heimsfaraldurinn skall á, fór meðalaldurinn niður í 29 ár og hafði ekki mælst jafn lágur síðan á fjórða ársfjórðungi 2006. Meðalaldurinn hefur haldist lágur allt undangengið ár og var 29,2 ár nú á þriðja ársfjórðungi þessa árs.

Talsverð fylgni er til staðar milli aldurs fyrstu kaupenda og stærðar þeirrar íbúða sem þeir kaupa, sem kemur ekki á óvart. Samhliða því sem aldur fyrstu kaupenda hefur farið lækkandi hefur meðalstærð íbúða sem þeir kaupa einnig minnkað. Á undangengnu ári var meðalstærð íbúða fyrstu kaupenda 94 fermetrar sem er um 38 fermetrum minna en meðalstærð íbúða í öðrum viðskiptum,“ segir á vef Landsbankans.


Tengdar fréttir

Fjölgar í foreldrahúsum

Heimsfaraldurinn hefur haft mikil áhrif á þróun leigumarkaðsins hér á landi og sést það vel í aldurshópnum 18 til 24 ára. Árið 2020 bjuggu 16% fleiri á því aldursbili í foreldrahúsum en árið 2019. Á sama tíma minnkar hlutfallið eða stendur í stað í öðrum aldurshópum.

Segir hag­stæðara að kaupa fyrstu eign í dag en eftir ár

Hagstæðara er fyrir þá sem ætla sér að koma sér inn á fasteignamarkaðinn sem fyrstu kaupendur að gera það núna en það verður eftir um ár. Vaxtahækkunarferli sé nú hafið og útlit sé fyrir að það muni halda áfram og á sama tíma mun hægja á íbúðaverðshækkunum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×