Heimsmarkmiðin

Íbúar í Tombo geta nú skrúfað frá krana til að fá heilnæmt drykkjarvatn

Heimsljós
Þakklæti til Íslendinga
Þakklæti til Íslendinga

Íslendingar hafa um árabil unnið að verkefnum í Síerra Leóne í samstarfi við sjávarútvegsráðuneytið og UNICEF.

Íbúar sjávarþorpsins Tombo í Síerra Leóne geta nú skrúfað frá krana til að fá heilnæmt drykkjarvatn. Áður þurftu margir þeirra að sækja vatn í handgrafna brunna sem oft voru mengaðir. Þorpsbúar hafa einnig aðgengi að bættri hreinlætisaðstöðu en almenningssalerni fyrir karla og konur, lýst upp með sólarrafhlöðum, hafa verið reist víðs vegar um þorpið, meðal annars við löndunarstöðvar þar sem jafnan er mikið um manninn. Í dag, 19. nóvember, er alþjóðlegi klósettdagurinn (World Toilet Day) þar sem vakin er athygli á mikilvægi hreinlætis og salernisaðstöðu á lýðheilsu, jafnrétti kynjanna, menntun, efnahagsþróun og umhverfisvernd.

Íslendingar hafa um árabil unnið að verkefnum í Síerra Leóne í samstarfi við sjávarútvegsráðuneytið og UNICEF. „Stuðningurinn felst einkum í bættu aðgengi að vatni og hreinlætisaðstöðu sem eykur lífsgæði íbúanna í fiskiþorpunum,“ segir Davíð Bjarnason deildarstjóri tvíhliða þróunarsamvinnu í utanríkisráðuneytinu. „Verkefnin snúa bæði að bættu lífsviðurværi íbúa og bættri meðferð afla sem landað er. Þrátt fyrir áskoranir tengdar COVID-19 við innleiðingu og framkvæmd verkefnanna hefur umtalsverður og sjáanlegur árangur náðst á verkefnatímanum, en stefnt er að því að framkvæmd þessara verkefna ljúki á næsta ári.“

Almenningssalerni í Tombo

Aðgengi að fullnægjandi vatns- og hreinlætisaðstöðu í Síerra Leóne er almennt afar takmarkað en aðeins 68 prósent af landsmönnum hafa aðgengi að heilnæmu drykkjavatni, en um 40 prósent í sveitahéruðum. Í fiskiþorpum er ástandið jafnan verra og vatnsbornir sjúkdómar algengir sem hefur sérstaklega neikvæð áhrif á heilsu og velferð barna.

Bygging vatnsveitu í fiskiþorpinu Tombo sem veitir rúmlega 40 þúsund manns aðgengi að vatni, meðal annars í skólum og heilsugæslustöðvum. Vatnsveitan er heilmikið mannvirki en hún samanstendur af 19 km af lögnum, 136 vatnspóstum og 544 krönum – og þjónar fleiri einstaklingum en allar íslenskar vatnsveitur að undanskildum Veitum.

Enn fremur hafa 18.500 íbúar þorpanna Goderich og Konacrydee fengið aðgengi að vatni. Vatnsveiturnar eru knúnar af sólarorku. Auk þess hafa búar nú aðgengi að almenningssalernum víðvegar um þorpin og hafa hlotið þjálfun í að byggja salerniaðstöðu á heimilum sínum. Vatns- og hreinlætisnefndir hafa verið stofnaðar í öllum þorpunum sem sjá um viðhald og rekstur, auk þess sem stuðlað hefur verið að vitundarvakningu íbúa um hreinlætismál og mikilvægi þess að útrýma saurmengun í þorpunum.

Að sögn Davíðs skilar aukið aðgengi að vatni og hreinlæti sér einnig í bættri meðferð fisks í þorpunum, en þar verður einnig byggð löndunaraðstaða með aðgengi að vatni. Hann segir að viðræður eigi sér stað um frekara samstarf í fleiri sjávarþorpum og ljóst að þörfin sé brýn víða í Síerra Leóne.

Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.