Innherji

Baráttan um borgina að hefjast

Fyrirséð er að hart verður barist um hylli kjósenda í komandi borgarstjórnarkosningum sem fram fara í maí á næsta ári. Áður en til kosninganna kemur, þurfa flokkarnir ýmist að stilla upp á lista eða fara í prófkjör og því ekki seinna vænna að flokkarnir fari að velja sér forystufólk. Fjölmörg ný nöfn eru nefnd til skjalanna í þeim efnum og sum hver kunnugleg.

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri hefur ekki enn staðfest hvort hann bjóði fram krafta sína í komandi kosningum. Fólk í öllum flokkum liggur undir feldi og íhugar hvort taka eigi slaginn.

Fyrirséð er að hart verður barist um hylli kjósenda í komandi borgarstjórnarkosningum sem fram fara í maí á næsta ári. Áður en til kosninganna kemur, þurfa flokkarnir ýmist að stilla upp á lista eða fara í prófkjör og því ekki seinna vænna að flokkarnir fari að velja sér forystufólk. Fjölmörg ný nöfn eru nefnd til skjalanna í þeim efnum og sum hver kunnugleg.

Nánir samstarfsmenn Dags B. Eggertssonar segja hann ekki ákveðinn um hvort hann hyggist halda áfram sem leiðtogi Samfylkingarinnar í Reykjavík og sjálfur vill hann ekkert gefa upp. Hann hefur þó tilkynnt að hann hyggist taka þátt í jólabókaflóðinu með bókina Ný Reykjavík - umbreytingar í ungri borg í Fréttablaðinu í morgun. Hann gefur þar ekki afgerandi svar um hvort hann hyggist halda áfram eða ekki.

Ef svo fer að Dagur gangi út úr Ráðhúsinu, er ljóst að glæný staða er uppi í borginni enda hefur hann verið í forystuhlutverki í borgarstjórn Reykjavíkur meira og minna síðastliðna tvo áratugi.

Flokkarnir hafast ólíkt að, en til stendur að minnsta kosti að halda prófkjör eða forval í Sjálfstæðisflokki, í Samfylkingu, hjá Miðflokki, Vinstri grænum og hjá Pírötum. Viðreisn mun leggja fyrir Reykjavíkurráð flokksins, sem samanstendur af flokksbundnum íbúum borgarinnar, á næstu vikum hvort prófkjör verði haldið, en það yrði þá í fyrsta sinn í sögu Viðreisnar. Vilji forystumanna flokksins stendur til þess að prófkjör verði haldið sem víðast. Framsóknarmenn hafa heldur ekki tekið ákvörðun um uppstillingu eða prófkjör og Sósíalistar eiga eftir að halda félagsfund til að ákveða fyrirkomulag uppstillingar. Lista Flokks fólksins verður stillt upp.

Borgarfulltrúum var fjölgað úr 15 í 23 á síðasta kjörtímabili. Framsókn náði engum inn. Sjálfstæðisflokkur aflaði sér rúmlega þrjátíu prósenta fylgi í kosningunum og náði inn átta borgarfulltrúum. 

Sjálfstæðismenn sem Innherjinn ræddi við lýstu vonbrigðum með oddvitann að hafa ekki tekist að mynda meirihluta úr feiknasterkri stöðu. Hvort þau vonbrigði muni hafa áhrif á val Sjálfstæðismanna um oddvita sinn verður svarað í prófkjöri.
Pawel Bartoszek og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir á fundi borgarstjórnar. Vísir/Vilhelm

Viðreisn, sem fékk rúmlega átta prósent fylgi og tvo kjörna borgarfulltrúa, gekk til liðs við þann meirihluta sem hafði áður starfað og reisti þannig við meirihlutasamstarfið sem margir viðmælendur Innherja færa rök fyrir að hafi annars verið hafnað af kjósendum.

Verður arftaki Dags?

En aftur að borgarstjóranum. Dagur vill ekkert gefa upp um það í bili hvort hann hafi í hyggju að halda áfram.

Að minnsta kosti tveir sitjandi borgarfulltrúar eru nefndir til skjalanna sem hugsanlegir arftakar, sem væntanlega myndu takast á um oddvitasætið í prófkjöri fari svo að Dagur láti gott heita. Þau eru varaformaðurinn Heiða Björg Hilmisdóttir og svo Skúli Helgason sem skipa annað og þriðja sæti lista Samfylkingarinnar í borginni. 

Skúli á fjölskylduheiður að verja í þeim slag, en stutt er síðan Heiða Björg lagði systur Skúla, Helgu Völu Helgadóttur þingmann sama flokks, í kjöri um varaformannsembætti flokksins.

Heiða Björg Hilmisdóttir er varaformaður Samfylkingarinnar og formaður velferðarráðs borgarinnar. Skúli Helgason er formaður skóla- og frístundaráðs.

Ýmsir viðmælendur Innherja innan Samfylkingarinnar hafa auk þess nefnt hugsanlega innkomu Rósu Bjarkar Brynjólfsdóttur inn í borgarmálin. Sjálf segir Rósa Björk að hún hafi enga ákvörðun tekið um slíkt og muni ekki gera á meðan ekki hefur verið leyst úr talningarmálum í norðvesturkjördæmi. Útilokar það sumsé ekki.

En hvað svo sem Dagur ákveður að gera er ljóst að miklar breytingar verða á borgarfulltrúaliði flokksins eftir kjörtímabilið. Kristín Soffía Jónsdóttir sem skipaði fjórða sætið hvarf til annarra starfa á tímabilinu og í hennar stað kom Aron Leví Beck Rúnarsson neðar af listanum. 

Þá lést Guðrún Ögmundsdóttir, borgarfulltrúi, eftir baráttu við krabbamein. Magnús Már Guðmundsson tók sæti hennar, en hætti á kjörtímabilinu. Þá tók sætið Ragna Sigurðardóttir, en hún sagði sig frá verkefninu því hún er í læknanámi. Síðust tók Ellen Jacqueline Calmon sætið og situr þar enn. 

Stefnir í oddvitaslag hjá Sjálfstæðisflokki og Brynjar myndi þiggja sæti

Hin blokkin í borgarpólítíkinni er Sjálfstæðisflokkurinn. Oddviti flokksins í borgarstjórn er Eyþór Arnalds. Sá hefur þegar gefið út að hann gefi kost á sér til endurkjörs „að öðru óbreyttu,” líkt og hann orðaði það í Silfri Ríkisútvarpsins á dögunum. 

Samkvæmt heimildum Innherja er stefnt að því að prófkjör Sjálfstæðismanna verði haldið þann 26. febrúar næstkomandi.

Hildur Björnsdóttir, sem nú skipar annað sæti flokksins, er nefnd af flestum Sjálfstæðismönnum sem kandídat til að skora Eyþór á hólm. Hún hefur lagt heilmikið í samfélagsmiðlaherferð undanfarnar vikur þar sem hún leggur til ýmsar nýstárlegar hugmyndir um borgarskipulag sem ýtir undir þær kenningar. 

Eyþór og Hildur hafa ólíka sýn á borgarmálin líkt og dæmin sanna, en Eyþór er talinn tilheyra hinum íhaldssama armi flokksins og Hildur hinum frjálslynda armi. Samkvæmt heimildum Innherja semur borgarfulltrúunum tveimur þó vel. Bæði hafa þau til að mynda gagnrýnt mjög rekstur borgarinnar og verið býsna samstíga þar. 

Hildur Björnsdóttir og Eyþór Arnalds

Áhugavert verður, ef af oddvitaslag milli þeirra verður, að sjá hvar hinn almenni Sjálfstæðismaður stendur í grundvallarspurningum um framtíð Reykjavíkurborgar en þar er helsta aðgreiningin milli borgarfulltrúanna tveggja. Þá mun eflaust skipta flokksmenn máli hvort þeirra telst líklegra til að leiða flokkinn til sigurs og í framhaldinu inn í meirihlutasamstarf.

Brynjar Níelsson, fyrrverandi þingmaður flokksins, hefur auk þess verið hvattur af ýmsum sem Innherji ræddi við til að taka af skarið og reyna fyrir sér í borgarmálunum. Sjálfur segist hann ekki ætla í toppslaginn, en gæti vel hugsað sér sæti neðar á lista. Sjálfstæðisflokkurinn sé í dauðafæri í borginni, að hans mati.

Þá eru fjöldi nýrra nafna nefnd sem gætu hugsað sér að fara í framboð í sæti neðar á lista flokksins. Má þar nefna Magnús Þór Gylfason yfirmann samskiptasviðs Landsvirkjunar og fyrrverandi borgarritara, Helgu Margréti Marzellíusardóttur tónlistarmann og kórstjóra Hinsegin kórsins, Jóhannes Stefánsson framkvæmdastjóra Lindavatns, Söndru Hlíf Ocares verkefnastjóra Byggingavettvangsins og kosningastjóra Sjálfstæðisflokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum og Magnús Sigurbjörnsson sem er stafrænn ráðgjafi.

Sandra Ocares, Eva Dögg Sigurgeirsdóttir, Helga Margrét Marzellíusardóttir og Magnús Þór Gylfason.

Enn fremur má nefna Helgu Láru Haarde sérfræðing hjá Attentus og Halldór Armand rithöfund. Þá hefur nafn Jóns Karls Ólasonar, sem er fyrrverandi forstjóri Icelandair og virkur í innra starfi flokksins, einnig verið nefnt og Eva Dögg Sigurgeirsdóttir. Fyrir á fleti er svo hópur borgarfulltrúa sem flest ætla að reyna fyrir sér aftur, til að mynda Valgerður Sigurðardóttir sem ætlar að reyna fyrir sér í prófkjöri, en hún skipar nú þriðja sætið á lista flokksins.

Er ekki bara best að kjósa Framsókn?

Framsóknarflokkurinn er sjóðheitur eftir gott gengi í tiltölulega nýafstöðnum þingkosningum og flokkurinn ætlar sér stóra hluti í borginni. Ekki hefur verið tekin formleg ákvörðun um hvort skuli stilla upp lista eða halda prófkjör. Líkt og fram hefur komið náði flokkurinn engum manni inn í síðustu borgarstjórnarkosningum og er það mál manna innan flokksins að nú sé mál að linni.

Aðalsteinn Haukur Sverrisson, Brynja Dan, Hrannar Pétursson og Arnar Þór Sævarsson.

Mörg nöfn eru nefnd til skjalanna, Arnar Þór Sævarsson aðstoðarmaður barnamálaráðherra og fyrrverandi sveitarstjóri á Blönduósi og Aðalsteinn Haukur Sverrisson sem skipaði annað sætið í þingkosningum flokksins í Reykjavík suður eru báðir taldir líklegir til að bjóða fram krafta sína í borginni.

Þá er Hrannar Pétursson, aðstoðarmaður varaformanns flokksins og fyrrverandi forsetaframbjóðandi talinn líklegur frambjóðandi auk Brynju Dan, áhrifavalds sem einnig skipaði annað sætið á lista í þingkosningum, í Reykjavík norður á eftir Ásmundi Einari Daðasyni. 

Nokkrir viðmælendur Innherja innan Framsóknarflokksins sögðust hafa hvatt fjölmiðlamanninn og fyrrverandi borgarfulltrúann Björn Inga Hrafnsson til dáða. Sá hefur hins vegar tekið af allan vafa um að hann ætli sér ekki fram.

Þá er Karl Garðarsson einnig sagður máta sig við borgarmálin um þessar mundir. Hann hefur meðal annars verið að skrifa pistla á Facebook um málefni sem tengjast skipulagi og borgarmálum almennt undanfarið. Viðmælendur Innherja innan Framsóknarflokksins telja hins vegar að eftirspurn eftir kröftum Karls í þessu tilliti sé talsvert minni en framboðið.

Þorvaldur Daníelsson, eða Valdi í Hjólakrafti, er nefndur af mörgum flokksmönnum sem frambærilegur kandídat.

Nafn Þorvaldar Daníelssonar hefur einnig komið upp í samtölum við Framsóknarmenn. Sá er betur þekktur sem Valdi í Hjólakrafti, þar sem hann kappkostar við að ná ungu fólki úr vanvirkni í virkni með hjólreiðum.

Pawel ákveður sig þegar praktíkin liggur fyrir

Líkt og fyrr segir veltur mikið á hvort Reykjavíkurráð Viðreisnar ákveði að prófkjör verði ofan á og þá hvers kyns prófkjör. Sitjandi oddviti flokksins, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, gefur áfram kost á sér til forystu hvort sem af prófkjöri verður eða ekki. Pawel Bartoszek, sem skipar annað sæti Viðreisnar í borginni, segir samstarfið við Þórdísi Lóu hafa gengið vel og segist ekki hafa gert upp hug sinn um hvort hann ætli sér ofar á lista, enda liggi ekkert fyrir um útfærslu prófkjörsins.

Af samtölum Innherja við Viðreisnarfólk er ljóst að vilji stendur til þess að það verði alvöru slagur um oddvitasætið. Vitað sé að skiptar skoðanir séu um ýmis borgarmál og hvort flokkurinn eigi að starfa til vinstri eða hægri í borginni.

Mál manna er að prófkjör sé tilvalinn vettvangur til þess að viðra hugmyndir frambjóðenda um hvar þeir standa í þessum efnum og uppskera eftir því.

Birna Hafstein.

Innan Viðreisnar láta flokksmenn sem Innherji ræddi við sig dreyma um fyrrverandi ráðherrann og varaformanninn Þorstein Víglundsson sem borgarstjóraefni flokksins, en sjálfur segir hann að honum þyki vænt um þegar óskað er eftir honum í skemmtileg verkefni. 

„Það hefur hins vegar hvorki komið að mér fáliðaður né fjölskipaður her að óska eftir mér í oddvitasæti Viðreisnar í borginni," segir Þorsteinn og hlær. 

Hann sé ekki á leið í borgarpólítíkina. 

Þá bar nafn Birnu Hafstein, formanns Félags íslenskra leikara og forseta Sviðslistasambands Íslands, oft á góma sem mögulegur frambjóðandi flokksins.

Vinstri græn búast við slag um oddvitann

Vinstri græn ætla sér að halda svokallað forval, sem er annað orð yfir prófkjör, þar sem líklega verður kosið um efstu þrjú sætin.

Líf Magneudóttir og Elín Oddný Sigurðardóttir

Þeir sem Innherji ræddi við og eru öllum hnútum kunnugir innan flokksins búast við slag um fyrsta sætið á milli Lífar Magneudóttur, sitjandi oddvita, og Elínar Oddnýjar Sigurðardóttur sem skipar annað sæti listans. 

Hæpið sé að aðrir leggi í oddvitasætið. Að minnsta kosti sé enginn augljós kostur í sjónmáli í bili.

Staða Pírata veltur á oddvitanum

Dóra Björt Guðjónsdóttir oddviti Pírata á kjörtímabilinu hefur ekki ákveðið hvort hún muni gefa kost á sér áfram í rafrænu prófkjöri Pírata. Hún varð í upphafi kjörtímabils yngsti forseti borgarstjórnar í sögu Reykjavíkur.

Alexandra Briem er reiðubúin að gefa kost á sér í oddvita í prófkjöri Pírata ef svo fer að oddvitinn láti gott heita.Vísir/Vilhelm

Ef svo fer að Dóra Björt hverfi á braut hefur Alexandra Briem, borgarfulltrúi Pírata og forseti borgarstjórnar, gefið út að hún muni gefa kost á sér í oddvitasætið. 

Alexandra hefur verið áberandi á kjörtímabilinu og hefur líka skráð sig á spjöld sögunnar, en hún er fyrsta transkonan sem gegnir embætti forseta borgarstjórnar. Hún tók við því hlutverki í maí síðastliðnum.

Varaborgarfulltrúi á útleið hjá Flokki fólksins

Í Flokki fólksins verður lista frambjóðenda stillt upp. Kolbrún Baldursdóttir verður áfram í fyrsta sæti, en samkvæmt heimildum Innherja er varaborgarfulltrúinn Ásgerður Jóna Flosadóttir sennilegast á útleið. 

Kolbrún Baldursdóttir og Ásgerður Jóna Flosadóttir.

Ásgerður Jóna hefur undanfarið verið í veikindaleyfi frá störfum sínum.

Sanna vill leiða Sósíalista áfram

Í Sósíalistaflokknum hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvernig skuli stilla á lista. Síðast hafi kjörnefnd tekið við tilnefningum og síðan hafi slembival þeirra ráðið uppstillingunni. Sú ákvörðun verði tekin á félagsfundi Sósíalista sem enn hefur ekki farið fram. 

Sanna Magdalena MörtudóttirVísir/Vilhelm

Sanna Magdalena Mörtudóttur er oddviti Sósíalistaflokksins og var ein stjarna kosningabaráttunnar árið 2018. Sjálf hefur hún mikinn áhuga á því að halda áfram starfi sínu sem borgarfulltrúi og ef hún fengi umboð til, myndi hún glöð leiða lista Sósíalista áfram.

Orðrómur hefur verið á kreiki um að Sólveig Anna Jónsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri Eflingar ætli sér í framboð í borginni. Ljóst er af samtölum Innherja við flokksmenn að slíkar hugmyndir hugnast þeim síður en svo illa. 

Ekki náðist hins vegar í Sólveigu Önnu við vinnslu fréttarinnar.

Enginn einhugur um Vigdísi í oddvitasætið

Prófkjör verður raunin hjá Miðflokksmönnum. Vigdís Hauksdóttir hefur leitt listann í borginni undanfarin fjögur ár, en samherjar hennar í stjórnmálum sem Innherji ræddi við sögðu að leit stæði yfir meðal hluta flokksmanna að einhverjum til að fara í slag við Vigdísi um toppsætið. 

Sjálf ætlar hún sér að bjóða sig fram á nýjan leik í oddvitasætið. Deildar meiningar eru meðal flokksmanna sem Innherji ræddi við um frammistöðu Vigdísar og Miðflokksins í borginni á yfirstandandi kjörtímabili. Olli það til að mynda talsverðu fjaðrafoki innan flokksins þegar Vigdís ljáði verslunarmanninum Bolla Kristinssyni rödd sína í umdeildri auglýsingaherferð verslunarmannsins um borgarstjóra, og sitt sýndist hverjum um það útspil Vigdísar.

Varaborgarfulltrúi Miðflokksins, Baldur Borgþórsson einkaþjálfari tilkynnti í vikunni að hann væri hættur í flokknum. Hann greindi frá því í viðtali í Bítinu á Bylgjunni í fyrradag að ástæðan væri sú að þeim Vigdísi semdi ekki. 


Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×