Innherji

Nýr hugsunarháttur hefur umbylt rekstri Arion banka

Þorsteinn Friðrik Halldórsson skrifar
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka. Arion banki

„Skilaboðin okkar árið 2019 voru einföld,“ sagði Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, aðstoðarbankastjóri Arion banka, á markaðsdegi bankans sem var haldinn í morgun. Ásgeir fór yfir árangurinn sem Arion banki hefur náð frá síðasta markaðsdegi bankans fyrir tveimur árum þegar stjórnendur kynntu nýja stefnu til að umbylta fyrirtækjalánabókinni.

„Bankinn þurfti að taka á rangri verðlagningu í fyrirtækjalánabók sinni. Enn fremur þurfti bankinn að innleiða nýjan hugsunarhátt hvað varðar fyrirtækjalán. Bankinn þurfti að styrkja tengslin við lykilviðskiptavini en slíta á þau tengsl sem voru hvorki ábatasöm fyrir bankann né viðskiptavininn,“ sagði Ásgeir.

Nýr hugsunarháttur hefur haft veigamikil áhrif á rekstur Arion banka að sögn Ásgeir. Í umhverfi sem var litað af heimsfaraldri og lægstu vöxtum sem sést hafa á Íslandi fór hreinn vaxtamunur bankans vaxandi og arðsemi fyrirtækjalána batnaði umtalsvert.

Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason, aðstoðarbankastjóri Arion banka, á markaðsdegi bankans í morgun.

Frá þriðja ársfjórðungi 2019 hefur hreinn vaxtamunur fyrirtækjalána aukist úr 2,8 prósentum upp í 3,6 prósent sem er hærra en langtímamarkmið bankans um 3,3, prósenta vaxtamun. Þetta, ásamt öðrum þáttum, hefur leitt til þess að arðsemi viðskiptavina á fyrirtækjasviði hefur aukist úr 6,9 prósentum upp í 25 prósent á sama tímabili.

Með arðsemi viðskiptavina er átt við heildartekjur bankans af viðskiptavini. Aukningin skýrist af betri vaxtakostnaði, hærri vaxtagjöldum og auknum þjónustutekjum af hverjum viðskiptavini.

„Árið 2019 vorum við að tapa viðskiptavinum og verða undir í samkeppni við aðra banka. Eftir að stefnu bankans var breytt komst hann á skrið og við höfum fundið fyrir fordæmalausri eftirspurn eftir þjónustu okkar frá bæði nýjum og rótgrónum viðskiptavinum. Nú stöndum við framar keppinautum okkar þegar kemur að arðsemi,“ sagði Ásgeir.

Í kynningunni var umbreyting lánasafns Arion banka sýnd með skýrum hætti. Fyrir tveimur árum voru 80 prósent af 100 stærstu kúnnum Arion banka undir 10 prósenta arðsemi sem var markmið bankans. Í dag eru 80 prósent 100 stærstu viðskiptavina bankans yfir 10 prósenta arðsemi þrátt fyrir áhrif heimsfaraldursins.

Þegar Arion banki kynnti stefnubreytinguna á markaðsdegi bankans í nóvember 2019 stóð hlutabréfaverð bankans í 76 krónum. Áhrifin hafa skilað sér í margföldun á hlutabréfaverðinu sem stendur nú í 192 krónum.

Undanfarið hefur Arion banki skilað gríðarlega hárri arðsemi í samanburði við erlenda banka þrátt fyrir umtalsvert umfram eigið fé og hátt vogunarhlutfall í erlendum samanburði. Arðsemi eiginfjár á þriðja ársfjórðungi var 17 prósent samanborið við 8,3 prósent á sama fjórðungi í fyrra.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.


Tengdar fréttir

Arion banki hagnaðist um 8,2 milljarða króna

Arion banki hagnaðist um 8.238 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi og var arðsemi eiginfjár 17,0% á fjórðungnum samanborið við 8,3% á sama tímabili í fyrra.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×