Viðskipti innlent

Greiðslu­kerfi hrundu á degi ein­hleypra: „Maður er orðinn vel þreyttur á þessu“

Árni Sæberg skrifar
Brynja Dan segir greiðslukerfi Valitors og Rapyd hafa hrunið í gær.
Brynja Dan segir greiðslukerfi Valitors og Rapyd hafa hrunið í gær. Vilhelm/Aðsend

Brynja Dan Gunnarsdóttir, sem heldur úti vefsíðunni 1111.is, segir greiðslukerfi Rapyd og Valitors hafa legið niðri á milli tíu og tólf í gærkvöldi. Það sé hápunktur dags einhleypra og því hlaupi tjón af þess völdum á hundruðum milljóna króna.

Dagur einhleypra, eða Singles Day, er haldinn hátíðlegur ellefta nóvember ár hvert víða um heim. Fyrir nokkrum árum var hefðin tekin upp hér á landi og bjóða fjölmörg fyrirtæki vörur og þjónustu á afslætti í vefverslun.

Brynja Dan Gunnarsdóttir heldur úti vefsíðunni 1111.is en þar eru tekin saman öll tilboð sem samstarfsaðilar vefsíðunnar bjóða. Hún segir í samtali við Vísi að hátt í fjögur hundruð fyrirtæki hafi skráð tilboð sín á síðunni í gær.

Brynja segir daginn hafa gengið betur en nokkur hafði vonað og að sala hafi verið á pari við sölunna í fyrra. „Greinilega margir sem náðu að klára jólin á netinu,“ segir Brynja.

Kerfið hrynji á hverju ári

Brynja segir hins vegar að hrun greiðslukerfa Rapyd og Valitor hafa spillt gleðinni að nokkru leiti. Hún segir kerfin hafa hrunið undan álagi um klukkan tíu í gærkvöldi. Það sé einmitt sá tími sem fólk flykkist inn á netverslanir til að klára jólainnkaupin með ríflegum afslætti.

Hún nefnir til dæmis að engar færslur hafi farið í geng í vefverslun Cintamani eftir klukkan tíu í gær. 

Hún segir það hafa verið viðbúið að vandamál yrðu í tenglsum við færsluhirðingu enda hafi það gerst á hverju ári síðan 1111.is fór í loftið.

Brynjar furðar sig á því að ekki sé gert ráð fyrir því mikla álagi sem verður á kerfinu á degi einhleypra. Hún efast um að öll greiðslumiðlun fari á hliðina í Bandaríkjunum á „Black Friday“ á ári hverju. „Maður er orðinn vel þreyttur á þessu,“ segir hún.

Þá segir hún að henni þyki leiðinlegt að sökinni sé skellt á 1111.is eða þær verslanir sem fólk verslar við þegar greiðslur komast ekki í gegn. Hún hefur þó skilning á því þar sem erfitt sé að hafa samband við greiðslumiðlunarfyrirtæki.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×