Í tilkynningu frá UAK segir að markmið mótsins sé að styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og auka aðgengi stúlkna og kvenna að íþróttaiðkun.
Mótið verður haldið samhliða Heimsþingi kvenleiðtoga sem fram fer í Hörpu í næstu viku.
Mótið er þó óhefðbundið fótboltamót þar sem leikreglur og stigagjöf hafa verið endurskilgreind með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti að leiðarljósi.
Eliza Reid, forsetafrú, setur dagskrá mótsins en hún hefst formlega í Origo höllinni klukkan 11 á mánudag.
Í kjölfarið fer fram heiðursleikur þar sem fulltrúar frá Heimsþingi kvenleiðtoga munu keppa við lið kvenna úr ólíkum íslenskum stjórnmálaflokkum. Þetta val íslenska liðsins er sagt eiga að endurspegla þá þverpólitísku samstöðu sem ríkir um kynjajafnrétti í íslenskum stjórnmálum.
Fótboltamótið er opið almenningi og mun standa yfir í Origo höll mánudag og þriðjudag frá klukkan 11 - 14.
Á mótinu mun fjölbreyttur hópur íslenskra og erlendra kvenna á öllum aldri etja kappi.
Meðal annars fyrrum landsliðskonur í knattspyrnu, þjóðþekktar listakonur og fyrrum heimsmeitari í Crossfit.
Hvert lið velur sér heimsmarkmið og hafa öll lið nú þegar valið sér markmið til að spila fyrir. Til dæmis hafa liðin tvö sem keppa í heiðursleiknum valið sér heimsmarkmið sem er númer 17 og ber yfirskriftina „Samvinna um markmiðin.“
Í tilkynningu UAK segir að þetta heimsmarkmið hafi verið valið vegna þess að markmið GGWCUP sé að koma koma mismunandi aðilum saman til að vinna sameiginlega að heimsmarkmiðum og kynjajafnrétti.
Klukkan sex síðdegis á mánudag stendur UAK einnig fyrir viðburðinum „What is football like in our countries?“ Viðburðurinn fer fram í Veröld, húsi Vigdísar Finnbogadóttur en þar verða sýndar stuttmyndir og síðan eru pallborðsumræður í kjölfarið. Þessi viðburður er einnig opinn öllum.
Atvinnulífið á Vísir verður með ýmsa umfjöllun í næstu viku í tilefni Heimsþingsins og samstarfs UAK við Global Goals World Cup.