Viðskipti innlent

Icelandair ræður þrjá nýja stjórn­endur til starfa

Atli Ísleifsson skrifar
Guðný Halla Hauksdóttir, Hákon Davíð Halldórsson og Jóhann Valur Sævarsson.
Guðný Halla Hauksdóttir, Hákon Davíð Halldórsson og Jóhann Valur Sævarsson. Icelandair

Guðný Halla Hauksdóttir, Hákon Davíð Halldórsson og Jóhann Valur Sævarsson hafa verið ráðin til Icelandair sem nýja stjórnendur til að efla enn frekar þjónustu við farþega sem og stafræna þróun.

Í tilkynningu segir að Guðný Halla hafi verið ráðin sem forstöðumaður þjónustuupplifunar, Hákon Davíð sem forstöðumaður framlínu á sölu- og þjónustusviði, og Jóhann Valur sem forstöðumaður gagna og sjálfvirkni.

„Guðný Halla hefur umfangsmikla reynslu á sviði þjónustu við viðskiptavini en hún var forstöðumaður þjónustuupplifunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur síðastliðin sex ár. Áður hefur hún leitt þjónustu hjá Vodafone og Tal og starfað sem sérfræðingur þjónustumála hjá VÍS. Guðný Halla er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði og MBA gráðu frá Háskóla Íslands.

Hákon Davíð starfaði sem forstöðumaður stafrænnar umbreytingar hjá Sýn áður en hann kom aftur til liðs við Icelandair en á árunum 2018-2020 starfaði hann á sviði þjónustuupplifunar hjá félaginu. Hákon Davíð hefur víðtæka starfsreynslu úr tækni- og fjarskiptageiranum en hann starfaði sem sérfræðingur í viðskiptatengslum hjá Símanum um fimm ára skeið og áður sem markaðsstjóri hjá Opnum kerfum. Hann er með B.Sc. gráðu í alþjóðamarkaðsfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Jóhann Valur hefur mikla reynslu úr flugheiminum en hann starfaði hjá Air Atlanta frá árinu 2019 þar sem hann stýrði teymum í hugbúnaðarþróun. Þá starfaði hann meðal annars sem gagnaverkfræðingur og við samþættingu kerfa hjá WOW air á árunum 2015-2019. Áður starfaði hann hjá Nova á um fimm ára skeið. Jóhann Valur er með B.Sc. gráðu í rekstrarverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. gráðu í sömu grein frá Technical University of Denmark,“ segir í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×