Atvinnulíf

„Mánudagsmorgnar alltaf í sérstöku uppáhaldi“

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Kristján Sigurjónsson bjó í Danmörku þegar hann stofnaði vefsíðuna Túrista. Það var árið 2009 en Kristján býr núna í Svíþjóð og stefnir á að breikka efnistök vefsíðunnar fljótlega, nú þegar síðan er orðin að áskriftarvef.
Kristján Sigurjónsson bjó í Danmörku þegar hann stofnaði vefsíðuna Túrista. Það var árið 2009 en Kristján býr núna í Svíþjóð og stefnir á að breikka efnistök vefsíðunnar fljótlega, nú þegar síðan er orðin að áskriftarvef. Vísir/Leifur Rögnvaldsson

Kristján Sigurjónsson hefur haldið úti Túrista í tólf ár, en búið erlendis allan tíman og gerir enn.

„Þetta var svo sem ekki frumleg hugdetta. Mér fannst einfaldlega vanta umfjöllun á íslensku um ferðalög og sérstaklega með fókus á ódýra valkosti. Þegar þarna var komið við sögu var íslenska krónan nefnilega hrunin og dýrt fyrir Íslendinga að vera í útlöndum,“ segir Kristján Sigurjónsson stofnandi og eigandi Túrista um aðdraganda þess að hann stofnaði vefsíðuna. 

Það var sumarið 2009 og frá þeim tíma hefur Kristján skrifað um sex þúsund greinar og síðunni var flett um tvö hundruð þúsund sinnum í mánuði þegar mest var.

„Fjöldi flettinga og lesenda er þó ekki sá mælikvarði sem almennt er notaður í netgeiranum í dag. Alla vega út í heimi,“ segir Kristján sem fyrir ári síðan breytti Túrista í áskriftarvef. „Núna skiptir meira máli að fá lesendur til kaupa áskrift líkt og tíðkaðist í fjölmiðlarekstri áður en netið komið til sögunnar.“

Túristi í 12 ár en útlendingur í 16 ár

Vefsíðan Túristi fór í loftið sumarið 2009 og er mörgum Íslendingum löngu kunn. Færri vita hins vegar að frá upphafi hefur Kristján starfsrækt vefsíðuna erlendis.

„Ég flutti til Kaupmannahafnar sumarið 2005 þegar konan mín fór í sérfræðinám. Það lá alltaf fyrir þegar við kynntumst að hún myndi fara út í nám fyrr en síðar,“ segir Kristján og bætir við: „Það þótti mér mikill kostur enda verið með útþrá lengi en hafði bara spreytt mig á stuttri dvöl í Grikklandi og Frakklandi fram að þessu.“

Í Kaupmannahöfn byrjaði Kristján að skrifa fyrir íslensk blöð og tók síðar að sér alls kyns verkefni sem þá tengdust umsvifum Íslendinga í Danmörku. Hann réði sig síðan í markaðsdeildina hjá Sterling flugfélaginu.

En síðan kom hrunið.

„Það félag fór því miður í þrot þegar Guð var beðinn um að blessa Ísland. Þá tóku við súrir mánuðir þar sem hópur starfsmanna gerði tilraunir til að koma Sterling í loftið á ný í samstarfi við danskan auðmann og svo fjárfestingasjóð.“

Túristi verður til

Eftir þrot Sterling fékk Kristján hugmyndina að vefsíðunni. Samhliða því að setja vefinn í loftið sumarið 2009, starfaði Kristján við að markaðssetja Íslandsferðir frá Danmörku og Svíþjóð.

Um tveimur árum síðar fannst Kristjáni vera kominn tími til að láta á það reyna að gera Túrista að fullu starfi og lífsviðurværi.

Það gekk upp og fyrir vikið eru mánudagsmorgnar alltaf í sérstöku uppáhaldi. Vinnan við Túrista er nefnilega það skemmtileg að mér finnst ég í raun aldrei vera í vinnunni,“ 

segir Kristján.

Á Túrista birtast fréttir daglega og viðurkennir Kristján að frídagarnir hafi verið fáir síðastliðinn áratug.

„Ég skal þó viðurkenna að ég væri alveg til í algjört frí í eina viku eða svo.“

Árið 2012 flutti fjölskyldan til Stokkhólms og býr þar enn. Um svipað leyti breytti Kristján áherslum í efni á vefsíðunni og fór að skrifa meira af fréttum sem tengjast viðskiptahliðinni á flug- og ferðageiranum.

„Og þess háttar greinar eru mest áberandi á síðunni í dag.“

Þegar Túristi breyttist í áskriftarvef, fækkaði lesendum en tekjur jukust. Kristján telur líklegt að sú þróun skili sér til Íslands að netmiðlar verði í auknum mæli áskriftarmiðlar.  Vísir/Leifur Rögnvaldsson

Túristi þroskast í áskriftarvef

Að sögn Kristjáns er það mjög algengt í Skandinavíu og víðar að netmiðlar séu seldir í áskrift. 

Það er eðlileg og tímabær þróun að hans mati.

„Ég ákvað alla vega að skipta um kúrs í fyrra og loka hluta af síðunni. Aðeins áskrifendur fá aðgang að öllum greinum og viðtökurnar hafa farið töluvert fram úr væntingum,“ segir Kristján.

Í dag eru áskrifendur Túrista mörg hundruð talsins og segir Kristján þeim fara fjölgandi jafnt og þétt. Lesendurnir eru þó færri þeir voru enda stór hluti af greinunum læstur. 

Tekjurnar eru aftur á móti meiri en þær hafa nokkru sinni verið.

Sjálfur telur hann að áskrift netmiðla eigi eftir að aukast á Íslandi eins og erlendis.

„Markmiðið á miklu frekar að fá lesendur til að kaupa áskrift og sú þróun hlýtur að skila sér til Íslands í auknum mæli. Bæði fyrir almennar fréttasíður og svo sérhæfða netmiðla eins og minn,“ segir Kristján.

Kristján er afar ánægður með það hvernig áskriftin er að skila sér.

„Eftir á að hyggja þá hefði ég átt að taka þetta skref miklu fyrr því það var krefjandi að breyta fyrirkomulaginu þegar heimsfaraldurinn var í hámæli og tekjur ferðaþjónustufyrirtækja litlar sem engar,“ segir Kristján og bætir við: 

Það kom reyndar á daginn að það voru miklu fleiri en bara þeir sem starfa í ferðaþjónustunni sem vildu hafa aðgang að greinum Túrista. 

Fjármálageirinn er þannig áberandi í áskriftarhópnum og eins áhugafólk um flug og samgöngur.“

Að sögn Kristjáns eru næstu skref Túrista að breikka efnistökin með því að fá fleiri til að skrifa greinar og viðtöl.

Jafnvel að það hylli þá í smá frí fyrir hann sjálfan.

„Það er löngu tímabært enda hef ég staðið vaktina á nánast hverjum degi síðastliðin tólf ár.“


Tengdar fréttir

„Fjölskylda og vinir halda að við séum búnir að meika það“

Í síðustu viku sagði Vísir frá því að íslenska sprotafyrirtækið Lightsnap hefði sprengt öll nýskráningarmet Google þegar það opnaði fyrir appþjónustuna sína í Svíþjóð. Fyrir vikið misskildi Google viðtökurnar og taldi að um netárás væri að ræða. Lightsnap hyggst á enn frekari útrás og stefnir næst á að opna í Bandaríkjunum.

„Ég fékk oft að heyra að þetta væri nú frekar bjartsýnt hjá mér“

„Ég hafði stofnað fyrirtækið Icelandic Coupons, sem er afsláttarapp fyrir ferðamenn og Íslendinga árið 2015. Í þeirri vegferð var ég mikið að funda á veitingahúsum landsins. Mér fannst ótrúlegt að sjá hvað voru margar aðferðir notaðar við að halda utan um borðabókanir. Sumir voru með stílabækur, aðrir voru að notast við Word í tölvum og enn aðrir við erlend bókunarforrit og svo framvegis,“ segir Inga Tinna Sigurðardóttir framkvæmdastjóri Dineout um aðdragandann að því að Dineout var stofnað.

Á leið í útrás en allt hófst þetta í háskólanum

„Við fórum af stað sem ungt teymi með ýmislegt ólært. Okkur vantaði meiri breidd í hópinn og höfðum ekki nægilega mikla þekkingu í sölu- og markaðstengdum málum, þar af leiðandi lentum við í byrjunarörðugleikum við að koma vörunni á markað. Þá tók við erfitt tímabil þar sem við misstum gott fólk frá okkur,“ segir Aðalheiður Hreinsdóttir framkvæmdastjóri og einn stofnenda LearnCove. „Þessum tíma fylgdi þó mikill lærdómur og við erum reynslunni ríkari ásamt því að hafa bætt við okkur öflugum einstaklingum í sölu- og markaðshliðinni. Við erum virkilega ánægð með breidd hópsins í dag og hversu vel hann nær saman,“ segir Aðalheiður.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.