Viðskipti innlent

Fyrsta sinn í tvö ár sem Icelandair skilar hagnaði

Samúel Karl Ólason skrifar
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair. Vísir/Egill

Icelandair hagnaðist um 2,5 milljarða króna á þriðja ársfjórðungi þess árs. Þetta er í fyrsta sinn í tvö ár sem regluleg starfsemi félagsins skilar hagnaði. Bogi Nils Bogason, forstjóri, segir í tilkynningu frá Icelandair að heimsfaraldur Covid-19 hafi enn áhrif á starfsemi félagsins en þrátt fyrir það sé það á réttri leið.

Lausafjárstaða Icelandair var 57 milljarðar í lok ársfjórðungsins og handbært fé frá rekstri 3,2 milljarðar. Á sama fjórðungi í fyrra var handbært fé neikvætt um 11,1 milljarð.

Í áðurnefndri tilkynningu segir að Icelandair hafi aukið umsvif sín í millilandaflugi með 34 áfangastaði. Ellefu í Norður-Ameríku og 23 í Evrópu. Heildarfjöldi farþega Icelandair var 700 þúsund og sexfaldaðist hann, samanborið við þriðja ársfjórðung síðasta árs. Sætanýting var 68,2 prósent og stundvísi 86 prósent.

Bókanir jukust fyrri hluta sumars en þar hægði á vegna áhrifa Delta-afbrigðisins.

„Aðstæður hafa batnað á ný og hefur bókunarflæði verið sterkt undanfarnar vikur. Opnun Bandaríkjanna fyrir evrópska ferðamenn er mjög jákvætt skref í áframhaldandi uppbyggingu félagsins þar sem allir markaðir þess verða opnir í kjölfarið. Flugframboð félagsins á þriðja ársfjórðungi var um 50% af framboði félagsins á sama tíma 2019. Í fjórða ársfjórðungi mun félagið auka framboð sitt í um 65% af framboðinu 2019 og fljúga til 11 áfangastaða í Norður Ameríku og 15 í Evrópu. Áhrifa heimsfaraldursins og tilheyrandi ferðatakmarkana mun þó halda áfram að gæta og hátt eldsneytisverð mun hafa neikvæð áhrif á afkomu félagsins í fjórða ársfjórðungi,“ segir í tilkynningunni frá Icelandair.

Fjöldi farþega í innanlandsflugi var 67 þúsund og er það sambærilegt fjöldanum sem hann var fyrir Covid-19.

Þá segir í tilkynningunni að mikill uppgangur hafi verið í fraktflutningum. Hann hafi skilað hærri tekjum og flutningsmagn hafi verið meira á ársfjórðungnum en fyrir faraldurinn.

„Eftir árangursríka uppbyggingu skilar félagið hagnaði í fyrsta sinn í tvö ár sem er mjög ánægjulegt. Við þrefölduðum flugframboð í millilandaflugi á milli ára og nam framboðið um 50% af framboði sama tímabils 2019 sem er mjög góður árangur í ljósi krefjandi aðstæðna. Sætanýting var góð í júlí og ágúst og við fluttum fleiri farþega í júlímánuði en fyrstu sex mánuði ársins samanlagt. Þá tók flug yfir Atlantshafið verulega við sér þegar Evrópa opnaði á ferðalög fyrir bandaríska ferðamenn. Við erum stolt af því að hafa náð 86% stundvísi í fjórðungnum þrátt fyrir flóknar ferðatakmarkanir og mikla aukningu í flugi á stuttum tíma. Ástæða þessa árangurs er fyrst og fremst sá sveigjanleiki sem félagið býr yfir – bæði leiðakerfisins og ekki síður starfsfólks okkar sem ég vil þakka fyrir frábæra frammistöðu, úthald og útsjónarsemi við að bregðast hratt við breytingum á mörkuðum okkar og koma auga á öll möguleg tækifæri.

Þrátt fyrir að við séum á réttri leið, hélt heimsfaraldurinn áfram að hafa áhrif á á starfsemi félagsins. Útbreiðsla Delta afbrigðisins hægði á bókunum í lok fjórðungsins en þær hafa nú aftur tekið við sér. Eftirspurn eftir frakflutningum var áfram sterk. Icelandair Cargo sérhæfir sig meðal annars í flutningi á ferskum íslenskum fiski og styður þannig við þá mikilvægu útflutningsgrein okkar Íslendinga. Við nýtum öflugt leiðakerfi okkar til þess að koma ferskum fiskafurðum á fjölbreytta markaði beggja vegna Atlantshafsins og á disk neytandans á innan við 48 tímum en þessar vörur eru jafnframt með lágt kolefnisfótspor samanborið við aðra próteingjafa.

Bókunarstaða félagsins er góð næstu mánuði og opnun landamæra í Bandaríkjunum þýðir að við getum farið að nýta leiðakerfi félagsins til fulls í fyrsta skipti síðan í mars 2020. Það er mikilvægt fyrir endurreisn ferðaþjónustunnar á Íslandi að við tryggjum samkeppnishæfni Íslands sem ferðamannalands. Lykilþáttur í því er að íslensk stjórnvöld tryggi að þær ferðatakmarkanir sem eru í gildi á landamærum hér á landi séu einfaldar, ferlið sé skilvirkt og í samræmi við þær reglur sem gilda í löndunum í kringum okkur. Við hjá Icelandair erum vel í stakk búin til að grípa þau tækifæri sem munu gefast á næstu mánuðum með öfluga innviði, sterka lausafjárstöðu, reynslumikið starfsfólk og með því að nýta þann mikla sveigjanleika sem félagið býr yfir.“

Uppfært: Inngangi fréttarinnar hefur verið breytt og útskýrt betur að þetta er í fyrsta sinn í tvö ár sem regluleg starfsemi Icelandair skilar hagnaði. Félagið skilaði hagnaði á þriðja ársfjórðungi síðasta árs, sem var að mestu vegna greiðslna frá Boeing.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×