Handbolti

Bjarki Már markahæstur í tapi | Sjö mörk Kristjáns dugðu ekki

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Bjarki Már Elísson skoraði sjö mörk fyrir Lemgo í kvöld.
Bjarki Már Elísson skoraði sjö mörk fyrir Lemgo í kvöld. Axel Heimken/picture alliance via Getty Images

Bjarki Már Elísson skoraði sjö mörk fyrir Lemgo sem tapaði fyrir Benfica í Evrópudeildinni í handbolta í kvöld, 30-29. Kristján Örn Kristjánsson skoraði einnig sjö mörk í liði PAUX Aix í eins marks tapi gegn RK Nexe, 30-29.

Eins og lokatölurnar kannski gefa til kynna var mikið jafnræði með liðunum þegar Lemgo tók á móti Benfica. Liðin skiptust á að skora, en þegar flautað var til hálfleiks höfðu Bjarki og félagar tveggja marka forskot, 16-14.

Það sama var uppi á teningnum í seinni hálfleik, en gestirnir náðu þó mest þriggja marka forskoti. Það varði þó ekki lengi og lítið sem ekekrt gat skilið liðin að það sem eftir var.

Þegar aðeins örfáar mínútur voru til leiksloka var staðan jöfn, 27-27, en þá skoruðu gestirnir þrjú mörk gegn aðeins tveimur mörkum heimamanna og unnu eins marks sigur, 30-29.

Svipaða sögu er að segja af leik Aix og Nexe, en liðin skiptust á að hafa forystuna. Gestirnir í Nexe fóru með þriggja marka forskot inn í hálfleikinn, 17-14, en seinni hálfleikurinn var stál í stál.

Kristján Örn og félagar höfðu eins marks forystu þegar stutt var til leiksloka, en gestirnir í Nexe skoruðu seinustu tvö mörk leiksins og unnu eins marks sigur, 30-29.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×