Viðskipti innlent

Netárás truflaði sölu miða á uppistand Ara Eldjárn

Eiður Þór Árnason skrifar
Mikil álag var á netþjónum Tix miðasölu síðasta miðvikudag.
Mikil álag var á netþjónum Tix miðasölu síðasta miðvikudag. Samsett

Nokkuð öflug netárás var gerð á miðasölusíðuna Tix.is á miðvikudag og stóð hún yfir í um þrjár til fjórar klukkustundir. Um var að ræða svokallaða dreifða álagsárás (e. DDos) þar sem gríðarmikilli netumferð frá hinum ýmsu löndum var beint að netþjónum Tix á sama tíma.

Miðasala á Áramótaskop grínistans Ara Eldjárn var í fullum gangi þegar árásin átti sér stað og þurftu starfsmenn Tix að grípa til þess ráðs að gera hlé á sölunni meðan reynt var að bregðast við.

Árásinni lauk svo eftir að Tix lokaði fyrir alla erlenda netumferð sem gerði það einnig að verkum að viðskiptavinir sem voru staddir erlendis gátu á tímabili ekki komist inn á síðuna. Hrefna Sif Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Tix.is, segir að með þessum aðgerðum hafi þeim tekist að koma í veg fyrir að síðan myndi hrynja vegna álags en markmiðið með dreifðum álagsárásum er gjarnan að valda einhvers konar rofi á þjónustu.

Engin hótun fylgdi

„Við náðum allavega að ráða vel við þetta en auðvitað var þetta alveg þokkalega stór árás svo þetta hafði áhrif,“ segir Hrefna. Þetta er í fyrsta sinn sem Tix lendir í slíkri netárás.

Fyrirtækið hefur í kjölfarið fengið ráðgjöf hjá netöryggissérfræðingum og stendur til að efla varnir félagsins. Einnig á að tilkynna málið til netafbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Athygli vekur að ekkert hótunarbréf eða greiðslukrafa fylgdi netárásinni en oft og tíðum er markmið þeirra sem standa að baki þeim að kreista peninga út úr skotmörkum sínum.

„Það er skrýtið að það hafi ekki komið neitt með svo við höfum ekki hugmynd um hver gerði þetta eða af hverju. Það er voða erfitt að gera eitthvað í þessu og rekja upprunann þannig að við fórum bara strax í að skoða okkar öryggismál og verja netþjónanna enn frekar,“ segir Hrefna.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.