Erlent

Fólk með bælt ó­næmis­kerfi fái þriðja skammtinn fyrr

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Lyfjastofnun Evrópu hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að einstaklingar 18 ára og eldri geti fengið örvunarskammt af bóluefni Pfizer. 
Lyfjastofnun Evrópu hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að einstaklingar 18 ára og eldri geti fengið örvunarskammt af bóluefni Pfizer. 

Lyfja­stofnun Evrópu, EMA, hefur nú hefur nú gefið það út að ein­staklingar 18 ára og eldri geti fengið örvunar­skammt af bólu­efni Pfizer/BioN­Tech gegn Co­vid-19. Það er þó í höndum heil­brigðis­yfir­valda í hverju landi fyrir sig að á­kveða hverjir fá þriðja skammtinn.

Þá hefur stofnunin komist að þeirri niður­stöðu að þeir sem eru með veru­lega skert ó­næmis­kerfi geti fengið þriðja skammtinn að minnsta kosti 28 dögum eftir seinni skammt.

Mælt er með slíku þar sem rann­sóknir sýna að auka­skammtur ýti undir mót­efna­svar hjá þeim ein­stak­lingum. Á það bæði við um bólu­efni Pfizer og bólu­efni Moderna.

Á það þó að­eins við um þá sem eru með skert ó­næmis­kerfi en hjá heil­brigðum ein­stak­lingum þurfa að líða í hið minnsta sex mánuðir milli skammtanna.

Sér­fræðinga­nefnd EMA um lyf fyrir menn (CHMP) vísar til þess að gögn fyrir bólu­efni Pfizer/BioN­Tech sýni að magn mót­efna aukist hjá ein­stak­lingum 18 til 55 ára þegar örvunar­skammtur er gefinn um sex mánuðum eftir seinni skammt.

Að því er kemur fram í til­kynningu á vef Lyfja­stofnunar Evrópu er verið að rann­saka mögu­lega örvunar­skammta með bólu­efni Moderna hjá þeim sem eru ekki með skert ó­næmis­kerfi.

Fjölmörg lönd hafa þegar farið að huga að örvunarskömmtum þó að niðurstaða EMA hafi ekki legið fyrir fyrr en nú. 

Bandaríkin, Bretland og Ísrael hafa þegar gefið leyfi fyrir örvunarskömmtum en Ísraelar eru þeir einu að svo stöddu sem setja engar skorður á hver geti fengið þriðja skammtinn. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×