Handbolti

Sig­valdi Björn og Haukur skoruðu í naumum sigri Ki­elce

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Sigvaldi Björn skoraði þrjú mörk í kvöld.
Sigvaldi Björn skoraði þrjú mörk í kvöld. Kielce

Sigvaldi Björn Guðjónsson og Haukur Þrastarson léku báðir með Póllandsmeisturum Kielce er liðið lagði HC Motor með einu marki í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í handbolta, lokatölur 26-25.

Eftir tap í fyrstu umferð vann Kielce góðan sigur á Veszprém í 2. umferð og þurfti því sigur í Úkraínu í kvöld til að halda góðu gengi sínu áfram. Það gekk eftir og spiluðu Íslendingarnir sinn þátt.

Sigvaldi Björn skoraði þrjú mörk í leik dagsins og var meðal markahæstu leikmanna Kielce en alls voru þrír leikmenn markahæstir í dag með fjögur mörk hver.

Þá komst Haukur, sem er að koma til baka eftir erfið meiðsli, einnig á blað en hann skoraði eitt marka Kielce og gerði því í raun gæfumuninn. Lokatölur 26-25 Kielce í vil og liðið á góðu skriði.

Danska stórliðið Álaborg tapaði gegn Vardar frá Norður-Makedóníu í A-riðli Meistaradeildarinnar í kvöld, lokatölur þar 30-28 Vardar í vil. Arnór Atlason er sem fyrr aðstoðarþjálfari Álaborgar en Aron Pálmarsson var ekki með vegna meiðsla í kvöld.

Þetta var fyrsta tap Álaborgar í keppninni á leiktíðinni og liðið því einnig með fjögur stig að loknum þremur leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×