Handbolti

Lem­go komið í riðla­keppni Evrópu­deildarinnar eftir sigur á Val

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Lemgo er komið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Lemgo er komið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Martin Rose/Getty Images

Bjarki Már Elísson og félagar hans í Lemgo eru komnir í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handbolta eftir sex marka sigur á Val ytra í kvöld, lokatölur 27-21. Bjarki Már lék ekki með Lemgo í kvöld vegna meiðsla.

Lemgo leiddi eftir fyrri leik liðanna en aðeins munaði einu marki á liðunum er þau mættust að Hlíðarenda, lokatölur þá 27-26. Leikur kvöldsins þróaðist nokkuð svipað en mjótt var á munum allt þangað til flautað var til hálfleiks, þá var staðan jöfn 11-11 og allt í járnum.

Valsmenn hófu síðari hálfleik af krafti og skoruðu fyrstu þrjú mörkin áður en heimamenn rönkuðu við sér. Þeir komust svo yfir, 16-15, þegar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum. Eftir það náðu heimamenn öllum völdum á vellinum og voru komnir fimm mörkum yfir þegar aðeins stundarfjórðungur var til leiksloka.

Reyndist það banabiti Valsmanna í kvöld en Lemgo vann leikinn á endanum með sex mörkum, 27-21, og þar með einvígið 54-47.

Bobby Schagen var markahæstur í liði Lemgo með sex mörk, þar á eftir kom Jonathan Carlsbogard með fimm. Þá varði Peter Johannesson 12 skot í marki heimamanna.

Hjá Valsmönnum var Þorgils Svölu Baldursson markahæstur með fjögur mörk, þar á eftir komu Vignir Stefánsson, Magnús Óli Magnússon og Agnar Smári Jónsson með þrjú mörk hver. Björgvin Páll Gústavsson varði 13 skot í marki gestanna.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.