Handbolti

„Handboltinn er eina íþróttin sem hefur staðist þeim bestu snúning í áratugi“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eina!
Eina! vísir/stöð 2 sport/vilhelm

Guðjón Guðmundsson fór yfir frábæran árangur Íslands á alþjóða vettvangi í dagskrárliðnum Eina í Seinni bylgjunni ásamt Viðari Halldórssyni, prófessor í félagsfræði.

„Handboltinn er eina íþróttin, eina, sem hefur staðist þeim bestu snúning í áratugi,“ sagði Gaupi í inngangi sínum.

Íslensk A-landslið í hópíþróttum hafa komist á 51 stórmót í sögunni, þar af hafa handboltalandsliðin komist á 43 stórmót. Karlalandsliðið í handbolta komst fyrst á stórmót 1958 og hefur alls keppt á fjörutíu stórmótum.

„Þetta er mögnuð saga, mögnuð hefð og magnaður árangur fyrir smáþjóð,“ sagði Viðar. Hann telur að handboltinn hafi alltaf legið vel fyrir Íslendingum.

„Í fyrsta lagi held ég að handboltinn hafi hentað okkur vel. Handbolti er leikur, það er fjör, fullt af mörkum, barátta, keppni, tækni og inniíþrótt. Við komum snemma inn í íþróttina og urðum strax góð, lentum í 6. sæti á HM 1961. Við fundum til okkar og það grefur sig inn í þjóðarsálina,“ sagði Viðar.

Klippa: Eina - Árangur handboltalandsliðanna

Bæði íslenskir leikmenn og þjálfarar hafa gert það gott utan landssteinanna og aðrir þjóðir hafa nýtt sér íslenska handboltahugvitið.

„Það er það sem skilgreinir hefð. Þetta gerist ekki bara einu sinni, heldur aftur og aftur og aftur. Við höfum séð fjölmarga íslenska handboltamenn sem hafa farið erlendis og gert það gott. Þjálfararnir okkar eru gríðarlega eftirsóttir og það er sótt í þessa íslensku þekkingu,“ sagði Viðar.

Innslagið í heild sinni má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.


Olísdeildirnar í handbolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×