Makamál

Meirihluti íhugað sambandsslit á árinu

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Samkvæmt niðurstöðum úr nýjustu könnun Makamála segjast rúmlega 60% lesenda hafa annað hvort slitið sambandi eða íhugað sambandsslit á árinu. 
Samkvæmt niðurstöðum úr nýjustu könnun Makamála segjast rúmlega 60% lesenda hafa annað hvort slitið sambandi eða íhugað sambandsslit á árinu. 

Lengi má manninn reyna, svo ekki sé minnst á ástarsambandið. Undanfarin misseri hafa óhjákvæmilega reynt á ýmsar stoðir lífsins sökum heimsfaraldurs, bæði í samfélaginu sem og einkalífinu.

Sumir hafa þurft að takast á við fleiri áskoranir en aðrir og nokkuð víst er að einangrun, vinnutap og veikindi hafa haft veruleg áhrif á líðan margra.

Meiri tími og minni hraði

Einhverjir segjast þó hafa fundið sterklega fyrir jákvæðum áhrifum heimsfaraldurs að því leyti að hraðinn varð annar í samfélaginu, það hægðist um og fólk fékk meiri tíma til að verja með sínum nánustu.

Meiri tími fyrir gæðastundir, meiri tími til að tengjast og meiri tími innan veggja heimilisins. Allt af hinu góða, eða hvað? 

Skilnaðartíðni hefur sjaldan verið eins lág og nú þrátt fyrir að tilkynningar um einhvers konar heimiliserjur eða -ofbeldi hafi stóraukist. 

Þó ber að taka mið af að því að sjaldan hafa eins fáir gengið í hnapphelduna og nú. 

Þrátt fyrir það er varla tímabært að draga einhverjar marktækar ályktanir út frá þessum upplýsingum þar sem áhrif þessa tímabils, sem við erum í raun og veru ennþá að upplifa, munu ekki koma strax í ljós.

Meirihluti fundið fyrir efa

Í síðustu viku spurðu Makamál lesendur Vísis hvort að þeir hefðu íhugað sambandsslit eða skilnað á árinu og tóku rúmlega þrjú þúsund manns þátt í könnuninni.

Ef marka má niðurstöðurnar hafa margir fundið fyrir töluverðum efa með samband sitt og segist meirihlutinn eða rúm 60% hafa annað hvort hugleitt sambandsslit eða slitið sambandinu á árinu. 


Niðurstöður*

Já, ég sleit sambandinu/skildi - 10%

Já, ég hef hugsað það alvarlega - 30%

Já, hef hugsað það en ekki alvarlega - 21%

Nei - 39%


Hafa ber í huga að það að efast og staldra við í ástarsambandi þarf ekki að vera slæmt, svo lengi sem að efinn er ekki að valda óhamingju til lengri tíma og að taka stærri pláss í sambandinu en vissan og hamingjan. 

Það ætti að vera góð hugmynd og æskilegt fyrir alla þá sem upplifa erfiðleika eða efa í sambandinu sínu að íhuga sambandsráðgjöf því að oftar en ekki getur ráðgjöf gert góð sambönd enn betri og aðstoðað pör í að finna út úr vandamálum sínum á faglegan hátt. 


Ertu búin(n) að svara nýjustu Spurningu vikunnar?

*Tekið skal fram að niðurstöður byggjast eingöngu á svörum lesenda Vísis og því ekki hægt að alhæfa um niðurstöður. Kannanir Makamála eru ætlaðar til skemmtunar og til að vekja umræðu og athygli á ýmsum málefnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×