Viðskipti innlent

Hlutabréfin rjúka hvergi meira upp en á Íslandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, og Birna Einarsdóttir bankastjóri þegar Íslandsbanki var skráður á markað í Kauphöllinni.
Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, og Birna Einarsdóttir bankastjóri þegar Íslandsbanki var skráður á markað í Kauphöllinni. Vísir/Arnar

Tólf mánaða verðhækkun á hlutabréfamarkaðnum hér á landi nam 65,4 prósentum í lok ágúst sem er mesta hækkunin yfir heiminn á þessu tímabili sé litið til helstu hlutabréfamarkaða. Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans sem hagfræðideild bankans gefur út.

Þar segir að mikið líf hafi verið á íslenskum hlutabréfamarkaði á síðustu misserum. Mikill áhugi hefur verið á þeim útboðum sem farið hafa fram frá því í fyrra en þessi þróun hófst með útboði Icelandair. Síðan hafa fjögur félög verið skráð á markað en þau eru Íslandsbanki, Play, Síldarvinnslan og Solid Clouds.

Miklar hækkanir á markaðnum hér á landi á síðustu tólf mánuðum skera sig nokkuð frá hækkunum annarra markaða.

Þannig var næstmesta hækkunin í Svíþjóð 41,7 prósent og var hækkunin hér á landi því 23,7 prósentustigum meiri. Þriðja mesta hækkunin var í Þýskalandi, 37,7 prósent en hækkanir á hinum Norðurlöndunum lágu á bilinu 30,4-35,9%.

Markaðurinn í Bandaríkjunum hefur hækkað um 29,2 prósent og um 24,6 prósent í Kanada. Markaðurinn í Bretlandi hefur hækkað um 23 prósent en Asíuríkin Japan og Kína reka lestina.

Hækkunin í Japan á þó meira skylt með hækkun annarra markaða, en hún var 21,2%. Kína sker sig verulega frá en þar hefur hækkunin einungis verið 4,4%.

Hagsjá Landsbankans.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×