Viðskipti innlent

Nýr 11,5 milljarða vísi­sjóður vill fjár­festa í konum í tækni­geiranum

Eiður Þór Árnason skrifar
Jenný Ruth Hrafnsdóttir, Helga Valfells og Hekla Arnardóttir, meðeigendur hjá Crowberry Capital.
Jenný Ruth Hrafnsdóttir, Helga Valfells og Hekla Arnardóttir, meðeigendur hjá Crowberry Capital. Aðsend

Íslenski sprota- og vaxtasjóðurinn Crowberry Capital hefur stofnað og fjármagnað 11,5 milljarða króna vísisjóð sem ber heitið Crowberry II. Um er að ræða stærsta vísisjóð sem hefur verið settur saman á Íslandi.

Að sögn Crowberry Capital mun sjóðurinn fjárfesta í norrænum tækni sprotafyrirtækjum á fyrstu stigum fjármögnunar og vera með starfsstöðvar í Reykjavík og Kaupmannahöfn.

Mun Crowberry II meðal annars leggja áherslu á að fjárfesta í sprotafyrirtækjum sem eru leidd af konum. Jenný Ruth Hrafnsdóttir, meðeigandi hjá Crowberry Capital, segir í samtali við Bloomberg-fréttaveituna að stjórnendur sjóðsins sjái vannýtt tækifæri á Norðurlöndunum þar sem einungis lítill hluti fjármögnunar fari til kvenna.

Mikil tækifæri við uppbyggingu tæknifyrirtækja

Fram kemur í tilkynningu frá Crowberry Capital að Evrópski fjárfestingasjóðurinn (EIF) hafi leitt fjármögnun sjóðsins. Aðrir fjárfestar séu íslenskir lífeyrissjóðir og fagfjárfestar, þar á meðal Davíð Helgason, stofnandi Unity Technologies. Evrópski fjárfestingasjóðurinn er í eigu nokkurra evrópskra banka og er stærsti fagfjárfestir vísisjóða í Evrópu.

Crowberry II hefur tíu ára líftíma og verður tekið á móti frekari áskriftarloforðum fagfjárfesta á fyrsta starfsári, að sögn stofnenda.

„Aðkoma EIF er staðfesting á því að hér á landi eru mikil tækifæri við uppbyggingu tæknifyrirtækja um leið og að staðfesta að þau vinnubrögð sem hafa verið þróuð hér við fjárfestingar séu eins og best gerist í Evrópu. Þessi beina erlenda fjárfesting mun hafa mikil áhrif á uppbyggingu tæknifyrirtækja og sköpun þekkingarstarfa á Íslandi til næstu 10 ára,” segir í tilkynningu.


Tengdar fréttir

Helga valin við­skipta­fræðingur ársins

Helga Valfells, framkvæmdastjóri og meðstofnandi Crowberry Capital, hefur verið valin viðskiptafræðingur ársins 2020 af Félagi viðskipta- og hagfræðinga. Verðlaunin hafa verið veitt árlega síðan árið 2000.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×