Viðskipti innlent

Úr 80 þúsund í ríflega 264 þúsund

Eiður Þór Árnason skrifar
Boeing 737 MAX þotur Icelandair.
Boeing 737 MAX þotur Icelandair. Vilhelm Gunnarsson

Ríflega 264 þúsund farþegar flugu með Icelandair í ágúst, samanborið við tæplega 80 þúsund á sama tíma í fyrra. Þar af voru farþegar í millilandaflugi rúmlega 241 þúsund samanborið við um 67 þúsund í ágúst 2020 og 195 þúsund í júlí 2021.

Farþegar til Íslands voru 145 þúsund í ágúst, samanborið við tæplega 53 þúsund fyrir ári. Tengifarþegum heldur áfram að fjölga en þeir voru 72 þúsund samanborið við um 1.300 í fyrra og um 51 þúsund í júlí í ár. 

Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir ágústmánuð sem Icelandair Group birti í Kauphöll í dag.

Að sögn félagsins var sætanýting í millilandaflugi 72% samanborið við 68% í ágúst í fyrra. Hækkaði hún úr rúmum 70% í júlí 2021 þrátt fyrir áhrif útbreiðslu delta afbrigðisins á Íslandi og á lykilmörkuðum félagsins erlendis.

Farþegar í innanlandsflugi voru 22.600 samanborið við 12.400 á sama tíma í fyrra. Farþegum í innanlandsflugi hefur fjölgað um 55% það sem af er ári miðað við sama tímabil í fyrra.

Ætla að ná 75 prósent af flugáætlun ársins 2019

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að flugfélagið hafi farið úr 30 brottförum á viku frá Keflavík í maí í um 200 brottfarir á viku í ágúst. Stundvísi í millilandaflugi var 87%.

„Sem það flugfélag sem flytur flesta ferðamenn til landsins þá hefur þessi hraða uppbygging skipt sköpum fyrir íslenska ferðaþjónustu á undanförnum mánuðum en við fluttum yfir 150 þúsund ferðamenn til landsins í sumar. Þá hefur góður árangur náðst í fraktflutningum til og frá landinu að undanförnu en mesta aukningin er á Norður-Atlantshafinu þar sem við höldum áfram að styrkja stöðu okkar,“ segir Bogi í tilkynningu.

Fjöldi seldra blokktíma í leigustarfsemi jókst um 61% á milli ára í ágúst, að sögn félagsins. Fraktflutningar jukust um 39% á milli ára í ágúst og hafa aukist um 21% fyrstu átta mánuði ársins miðað við sama tíma í fyrra.

Samkvæmt nýrri vetraráætlun Icelandair er stefnt að 160 brottförum á viku til 25 áfangastaða sem jafngildir um 65 til 75% af áætlun ársins 2019.

„Uppbyggingin heldur því áfram með það að markmiði að ná stöðugleika í fluginu á ný og við munum áfram nýta þann sveigjanleika sem félagið býr yfir til að aðlaga flugáætlun okkar að aðstæðum hverju sinni og grípa þau tækifæri sem gefast á hverjum tíma hér eftir sem hingað til,“ er haft eftir Boga í tilkynningu.


Tengdar fréttir

Fjöldi far­þega þre­faldaðist milli mánaða

Fjöldi farþega í millilandaflugi Icelandair rúmlega þrefaldaðist á milli maí og júní 2021. 72 þúsund farþegar flugu með félaginu í júní samanborið við 22 þúsund í fyrri mánuði. Samhliða því heldur farþegum í innanlandsflugi áfram að fjölga.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×