Viðskipti innlent

Fjöldi far­þega þre­faldaðist milli mánaða

Eiður Þór Árnason skrifar
Stjórnendur Icelandair telja að félagið sé í sterkri stöðu þegar ferðaþjónusta tekur við sér á heimsvísu. 
Stjórnendur Icelandair telja að félagið sé í sterkri stöðu þegar ferðaþjónusta tekur við sér á heimsvísu.  Vísir/Vilhelm

Fjöldi farþega í millilandaflugi Icelandair rúmlega þrefaldaðist á milli maí og júní 2021. 72 þúsund farþegar flugu með félaginu í júní samanborið við 22 þúsund í fyrri mánuði. Samhliða því heldur farþegum í innanlandsflugi áfram að fjölga.

Þetta kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum fyrir júnímánuð sem Icelandair Group birti í Kauphöll í dag. Fraktflutningar jukust um 12% á milli ára en heildarfjöldi farþega var rúmlega 94 þúsund í júní. 

Fjöldi farþega til Íslands var rúmlega 45 þúsund, tæplega fjórfalt fleiri en komu til landsins með Icelandair í júní í fyrra þegar komufarþegar voru um 12 þúsund. Fjöldi farþega frá Íslandi var um 12.500, samanborið við 6.200 í júní í fyrra. 

Nýta stærri vélar til að anna eftirspurn eftir frakt

Sætanýting félagsins í millilandaflugi var 53,2% í júní. Að sögn Icelandair skýrist lægri sætanýting að hluta af því að félagið hefur síðustu mánuði notað stærri vélar, Boeing 767, á ákveðnum flugleiðum til að mæta eftirspurn eftir fraktflutningum samhliða farþegaflugi.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að farþegaaukningin gefi ákveðna mynd af því hversu eftirsóttur áfangastaður Ísland er nú þegar ferðavilji er að aukast jafnt og þétt samhliða bólusetningum og auknu svigrúmi til ferðalaga.

Fjöldi farþega í innanlandsflugi var rúmlega 22 þúsund sem er fjölgun um 4 þúsund farþega miðað við maímánuð og 10 þúsund fleiri farþegar en ferðuðust með innanlandsflugi félagsins í júní í fyrra.

„Við höfum lagt áherslu á að viðhalda innviðum og þeim sveigjanleika að geta brugðist hratt og örugglega við aukinni eftirspurn til hagsbóta fyrir íslenska ferðaþjónustu og samfélagið í heild,“ er haft eftir Boga í tilkynningunni.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×