Viðskipti innlent

Landsbankinn ríður á vaðið og hækkar vexti

Eiður Þór Árnason skrifar
Landsbankinn hækkar breytilega vexti á óverðtryggðum íbúðalánum.
Landsbankinn hækkar breytilega vexti á óverðtryggðum íbúðalánum. Vísir/Vilhelm

Landsbankinn hefur ákveðið að hækka breytilega vexti á óverðtryggðum íbúðalánum um 0,20 prósentustig. Tæp vika er liðin frá stýrivaxtahækkun Seðlabankans og er Landsbankinn fyrstur stóru viðskiptabankanna til að tilkynna vaxtabreytingar í kjölfarið.

Fastir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum haldast óbreyttir hjá bankanum og á hið sama á við um fasta og breytilega vexti á verðtryggðum íbúðalánum. Vextir óverðtryggðra lána vegna bíla- og tækjafjármögnunar hækka um 0,20 prósentustig og yfirdráttarvextir um 0,25 prósentustig. Breytingarnar taka gildi á morgun, 1. september.

Hækka vexti á innlánsreikningum

Samhliða þessu mun Landsbankinn hækka vexti á óverðtryggðum sparireikningum um 0,20 prósentustig. Vextir á reikningum með föstum vöxtum hækka í flestum tilvikum um 0,25 prósentustig en vextir almennra veltureikninga verða óbreyttir.

Frá þessu er greint á vef Landsbankans og segir að vaxtaákvörðunin sé tekin í kjölfar þess að Seðlabankinn hækkaði vexti um 0,25 prósentustig þann 25. ágúst. Vaxtabreytingarnar taki einnig mið af ávöxtunarkröfu á skuldabréfamarkaði og öðrum fjármögnunarkjörum bankans.

Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki hækkaðu síðast vexti íbúðalána þann 1. júní, sömuleiðis í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabankans. 


Tengdar fréttir

Vextir gætu hækkað enn frekar á næstunni

Að óbreyttu getur vaxtastig ekki haldist eins lágt og það er í dag að sögn seðlabankastjóra. Meginvextir bankans voru hækkaðir í morgun og frekari vaxtahækkanir gætu verið framundan.

Seðlabankinn hækkar stýrivexti

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að hækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, verða því 1,25%.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×