Viðskipti innlent

Ívar fram­kvæmda­stjóri fjár­mála hjá Icelandair

Samúel Karl Ólason skrifar
Ívar S. Kristinsson.
Ívar S. Kristinsson.

Ívar S. Kristinsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjármála hjá Icelandair Group. Hann hafði áður gegnt stöðunni tímabundið frá því í maí og hefur Ívar sömuleiðis gegn ýmsum stjórnendastöðum hjá félaginu á undanförnum árum.

Meðal annars hefur Ívar verið framkvæmdastjóri flotamála og leiðakerfis félagsins og stjórnandi á fjármálasviði.

Í tilkynningu frá Icelandair segir að Ívar hafi verið forstöðumaður hjá Promens á árunum 2006-2008 eftir að hafa starfað sem verkefnastjóri í upplýsingatækni og rekstrarstýringu hjá Icelandair frá árinu 2000.

Hann er með M.Sc. gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands og MBA-gráðu með áherslu á fjármál frá Háskóla Norður-Karólínu í Chapel Hill. Hann er giftur Erlu Halldórsdóttur lyfjafræðingi og eiga þau þrjár dætur.

Í áðurnefndri tilkynningu er haft eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair Group, að það sé mikill styrkur fyrir félagið að Ívar leiði fjármálasviðið í gegnum þá tíma sem fram undan séu.

„Hann hefur yfirgripsmikla reynslu og þekkingu á flugrekstri sem er lykilatriði í því krefjandi umhverfi sem við stöndum frammi fyrir. Þá þekkir hann félagið vel, hefur gegnt ýmsum stjórnendastöðum hjá okkur á undanförnum árum, meðal annars verið í lykilhlutverki í fjármögnun og mótun flotastefnu félagsins. Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs,“ segir Bogi.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×