Viðskipti innlent

Taka yfir annað stærsta eggjabú landsins

Eiður Þór Árnason skrifar
Húsnæði Nesbúeggs að Hlöðunesi á Vatnsleysuströnd.
Húsnæði Nesbúeggs að Hlöðunesi á Vatnsleysuströnd. Nesbúegg

Samkeppniseftirlitið hefur heimilað kaup Líflands ehf. á helmingshlut í Nesbúeggjum ehf. Eftir kaupin er fyrirtækið alfarið í eigu Líflands sem átti áður 50 prósent hlutafjár í eggjabúinu. 

Að mati Samkeppniseftirlitsins gaf rannsókn málsins ekki til kynna að tilefni væri til íhlutunar vegna viðskiptanna.

Lífland meðal annars framleiðir og selur fóður til selur fóður til kúa-, kjúklinga-, eggja-, svína-, kalkúna- og sauðfjárbænda. Auk þess framleiðir Lífland hestafóður, malar hveitikorn til sölu undir merki Kornax, selur vörur fyrir hestamenn og rekur fimm verslanir.

Fram kemur í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins að áætlað sé að Nesbúegg sé með um það bil 38% varphæna í landinu. Hefur það hlutfall aukist frá árinu 2014 þegar það var um 33 til 34 prósent. Að sögn fyrirtækisins rekur það annað stærsta eggjabú landsins. 

Stjörnuegg langstærst á markaði

Lífland hefur fram að þessu selt Nesbúeggi fóður til eggjaframleiðslu en stjórnendur fyrirtækisins telja að aukinn eignarhlutur í eggjabúinu hafi engin samkeppnisleg áhrif í för með sér, hvorki á markaði fyrir egg né fóður.

Að sögn forsvarsmanna fyrirtækjanna eru engar breytingar fyrirhugaðar á starfsemi félagsins frá því sem verið hefur að undanskildu mögulegu auknu samstarfi við bókhald og dreifingu.

Árið 2012 áætlaði Samkeppniseftirlitið að þrjú eggjabú sinntu nær allri framleiðslu fyrir matvöruverslanir. Hlutdeild Nesbúeggs var þá áætluð undir 25 prósentum í sölu til almennra neytenda en stærst var Stjörnuegg með undir 55 prósenta markaðshlut.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×