Viðskipti innlent

„Algjör sprenging“ í einkafluginu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Þessar þotur voru á langtímastæði á Reykjavíkurflugvelli í byrjun vikunnar.
Þessar þotur voru á langtímastæði á Reykjavíkurflugvelli í byrjun vikunnar. Skjáskot

Sprenging hefur orðið í komum einkaflugvéla á Reykjavíkurflugvöll frá mánaðamótum, að sögn rekstrarstjóra á vellinum. Reiknað er með meiri umferð nú í júlímánuði en í júlí 2019, sem var einn besti mánuður fyrirtækisins frá upphafi.

Stöðugur straumur einkaflugvéla hefur verið gegnum Reykjavíkurflugvöll upp á síðkastið og ekkert lát er á umferðinni. Þá eru nokkrar stærri þotur í langtímastæði á flugvellinum, líkt og Reykvíkingar sem átt hafa leið hjá hafa eflaust tekið eftir. 

Stefán Smári Kristinsson rekstrarstjóri ACE FBO, sem þjónustar einkaflugvélar á Reykjavíkurflugvelli, segir greinilega mikinn áhuga á Íslandi sem áfangastað - sérstaklega eftir að hætt var að skima bólusetta ferðamenn fyrsta júlí.

„Þegar við berum saman við júnímánuð þá núna tólfta júlí þá erum við búin að ná sama tonnafjölda véla sem hafa komið til okkar og allan júnímánuð þannig að þetta er að aukast, það má segja að það hafi verið algjör sprenging í þessu.“

Staðan sé að verða sú sama og fyrir heimsfaraldur - en nú sé þó reyndar sá munur á að flugvélarnar sem koma eru stærri en áður; meðalþyngdin er meiri en síðustu ár, sögn Stefáns.

„Það stefnir allt í það að þetta muni toppa júlímánuð 2019.“

Stefán Smári Kristinsson, rekstrarstjóri ACE FBO.SKJÁSKOT

Meirihluti þeirra sem koma með einkaflugvélunum eru ferðamenn - og enn fremur efnaðir ferðamenn. Stefán segir Reykjavíkurflugvöll mikilvægan í þessu samhengi.

„Að fá þessa tegund af ferðamönnum til landsins, sem myndu kannski ekki stoppa ef þeir þyrftu að lenda í Keflavík.“

En hvaðan eru ferðamennirnir að koma?

„Það eru helst þessi lönd sem er búið að heimila, við fáum mjög mikið frá Bandaríkjunum, það er í takt við almenna ferðamenn sem fara til landsins. Við höfum fundið mikinn áhuga frá Bandaríkjunum en svo er þetta líka frá Evrópu.“

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.