Viðskipti innlent

Stefnir í áframhaldandi hótelrekstur í Bændahöllinni

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hótel Saga var í 59 ár í Bændahöllinni.
Hótel Saga var í 59 ár í Bændahöllinni. Vísir/Vilhelm

Einkaviðræður aðila tengdum Hótel Óðinsvé um kaup á Bændahöllinni eru vel á veg komnar. Nýir eigendur áforma áframhaldandi rekstur hótels í fasteigninni sem hýst hefur Hótel Sögu í 59 ár.

Bændablaðið greinir frá þessu og vísar til sameiginlegrar yfirlýsingar samningsaðila sem Sigurður Kári Kristjánsson hæstaréttarlögmaður er skrifaður fyrir. Sigurður Kári er tilsjónarmaður með fjárhagslegri endurskipulagningu Bændahallarinnar.

Rekstri Hótel Sögu var hætt í nóvember síðastliðnum og greint frá því í byrjun árs að Bændahöllin væri til sölu. Fram kemur í yfirlýsingunni að hópur fjárfesta, sem meðal annars tengist Hótel Óðinsvéum við Óðinstorg, ætli sér að kaupa Bændahöllina.

Rekstrarfélagið Gamma ehf rekur Hótel Óðinsvé. Gamma ehf er í helmingseigu Parma ehf og helmingseigu Punds ehf. Síðarnefnda félagið er í eigu Hannesar Hilmarssonar, forstjóra Air Atlanta, en hið fyrra í eigu Bergljótar Steinsdóttur, fyrrverandi flugfreyju. Bergljót er gift Magnúsi Stephensen, viðskiptafélaga Hannesar.

Uppi höfðu verið hugmyndir um að Háskóli Íslands keypti hótelið en viðræður fjármálaráðuneytisins við Bændahallarinnar runnu út í sandinn. Því stefnir í að áfram verði rekið hótel í Bændahöllinni.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×