Körfubolti

Ótrúleg sigurkarfa Aytons og Phoenix komið í 2-0

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Deandre Ayton treður boltanum ofan í og tryggir Phoenix Suns sigur á Los Angeles Clippers.
Deandre Ayton treður boltanum ofan í og tryggir Phoenix Suns sigur á Los Angeles Clippers. getty/Christian Petersen

Deandre Ayton tryggði Phoenix Suns sigur á Los Angeles Clippers, 104-103, í öðrum leik liðanna í úrslitum Vesturdeildar NBA í nótt. Phoenix er 2-0 yfir í einvíginu.

Paul George skoraði fjögur stig í röð og kom Clippers yfir, 102-103. Hann klikkaði hins vegar á tveimur vítaskotum þegar 8,2 sekúndur voru eftir.

Phoenix fór í sókn, skot Mikals Bridges geigaði en Pheonix fékk innkast þegar 0,9 sekúndur voru eftir. Jae Crowder tók innkastið og kastaði boltanum í áttina að Ayton sem tróð honum ofan í. Eftir mikla reikistefnu dæmdu dómararnir körfuna gilda og Phoenix fagnaði sigri.

Chris Paul er enn frá hjá Phoenix en Cameron Payne fyllti skarð hans með glæsibrag. Hann skoraði 29 stig, sem er það mesta sem hann hefur gert á ferlinum, og gaf níu stoðsendingar.

Ayton skoraði 24 stig og tók fjórtán fráköst og Devin Booker var með tuttugu stig en hitti illa og tapaði boltanum sjö sinnum. Phoenix hefur unnið níu leiki í röð í úrslitakeppninni sem er félagsmet.

George skoraði 26 stig fyrir Clippers og Reggie Jackson nítján. Kawhi Leonard er enn fjarri góðu gamni vegna meiðsla hjá Clippers.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×