Körfubolti

NBA dagsins: Vonsvikinn yfir að fá ekki verðlaunin en svaraði með 40 stiga leik

Sindri Sverrisson skrifar
Joel Embiid skorar, gegn Atlanta í nótt.
Joel Embiid skorar, gegn Atlanta í nótt. AP/Matt Slocum

Joel Embiid og Donovan Mitchell voru í aðalhlutverkum í NBA-deildinni í nótt þegar tveir leikir fóru fram í 8-liða úrslitum.

Það kom í ljós rétt fyrir leik Philadelphia 76ers og Atlanta Hawks að Embiid fengi ekki MVP-verðlaunin, sem verðmætasti leikmaður deildarinnar. Hann varð í 2. sæti á eftir Nikola Jokic.

Embiid lét það ekki á sig fá og átti stórleik í 118-102 sigri Philadelphia sem þar með jafnaði metin í 1-1 í einvíginu. Hann skoraði 40 stig í leiknum.

Embiid fékk hins vegar líka tæknivillu þegar hann snöggreiddist og ýtti við Danilo Gallinari sem fékk einnig tæknivillu, skömmu fyrir hálfleik, en staðan var þá 57-49 fyrir Philadelphia. Kannski losnaði þar um einhvern pirring yfir því að fá ekki MVP-verðlaunin sem Embiid kvaðst vissulega vonsvikinn yfir.

„Sem leikmaður þá leggur maður hart að sér fyrir svona stundir en þetta er ekki eitthvað sem ég ræð. Ég get ekkert gert í þessu,“ sagði Embiid.

Clippers náðu ekki skoti til að komast í framlengingu

Donovan Mitchell gerði enn betur en Embiid í nótt og skoraði 45 stig þegar Utah Jazz tók frumkvæðið gegn LA Clippers með 112-109 sigri í fyrsta leik. Clippers fengu 17 sekúndur til að jafna metin í lokin en tókst ekki að komast í skot á þeim tíma gegn frábærri vörn Utah.

Svipmyndir úr leikjunum og bestu tilþrifin má sjá í NBA dagsins hér að neðan.

Klippa: NBA dagsins 9. júní

NBA

Tengdar fréttir

Sá langneðsti úr nýliðavali til að vinna MVP-verðlaunin

Nikola Jokic varð í nótt fyrsti Serbinn og fyrsti leikmaður Denver Nuggets til að verða útnefndur mikilvægasti leikmaður NBA-deildarinnar í körfubolta. Hann er þriðji Evrópubúinn í sögunni til að afreka það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×