Atvinnulíf

Bólusettir en Covidþreyttir samstarfsfélagar

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Bólusettir og allir hressir í vinnunni? Eða þurfum við að gæta að líðan hvors annars áfram?
Bólusettir og allir hressir í vinnunni? Eða þurfum við að gæta að líðan hvors annars áfram? Vísir/Getty

Það neita því fæstir að heimsfaraldurinn hefur tekið á. Sóttvarnarreglur, boð og bönn, fjarvinna, lokun vinnustaða, hólfaskiptir vinnustaðir, öðruvísi matartímar, atvinnumissir, jólakúlur, páskakúlur, grímuskylda og spritt.

Og allir að hlýða Víði!

En loksins loksins sér fyrir endann á ástandinu og á dögunum tilkynnti heilbrigðisráðherra að síðar í þessum mánuði sé allt útlit fyrir að um níutíu prósent fullorðinna hafi fengið fyrri skammt bóluefnis.

En hver er þá staðan? Allir bara hressir?

Nei, á næstu vikum mega stjórnendur og samstarfsfólk alveg búast við því að ýmiss áhrif Covid eigi eftir að koma fram. Því í raun eru margir svolítið búnir á því.

Það má því alveg búast við því að þegar fólk fer að fjölmenna aftur á vinnustaði og allt fer að komast aftur í sitt horf, verði ýmislegt öðruvísi innan teyma en það var fyrir Covid.

Í umfjöllun FastCompany, er þessu lýst á eftirfarandi hátt:

Ímyndaðu þér að þú mætir til vinnu og það er ekki bara dagsformið hjá einum samstarfsfélaga sem er frekar slæmt þennan dag – með tilheyrandi pirring, þreytu, vera utan við sig, leiður, gramur eða annað– heldur eru þetta einkenni hjá allt að helmingi hópsins sem þú vinnur með!

Svo ekki sé talað um, ef þú upplifir það sjálf/ur að þú sért mögulega með styttri þráð þessa dagana, finnur fyrir þreytu í bland við spennufall, upplifir leiða, ótta, áhyggjur og kvíða…..

Því Covidþreyta er staðreynd og þótt við séum bólusett, er ekki þar með sagt að þreytan sé öll úr okkur. Eða önnur áhrif af Covid farin.

Hér eru nokkur góð ráð til stjórnenda og starfsfólks hvað þessi mál varða.

#1: Yfirlýsing: Það er í lagi að allt sé ekki í lagi

Eitt af því sem getur hjálpað fólki að takast á við áhrif Covid, er að opna umræðuna um það á vinnustöðum að heimsfaraldurinn hafði áhrif á okkur.

Að ræða það opinskátt að mögulega megi búast við því að allt verði ekki strax eins og fyrir Covid, því við erum að jafna okkur.

Og þurfum tíma.

Stjórnendur geta opnað á þessa umræðu á sameiginlegum fundum eða jafnvel gert kannanir. Aðalmálið er að fólk upplifi sig ekki einangrað í því að finna sig ekki í jafn góðu formi og líðan og áður.

#2: Leiðbeiningar um stuðning og aðstoð

Það er margsannað og alkunna að það hefur bein og jákvæð áhrif á afköst og frammistöðu starfsfólks, þegar því líður vel.

Sem aftur þýðir að það er hagur vinnustaða að tryggja sem best að svo sé.

Allt sem mögulega getur því hjálpað fólki að vita hvert það getur leitað eftir aðstoð eða hverju það megi búast við að upplifa í kjölfar Covid og bólusetninga, getur því verið mikill og góður stuðningur við starfsfólk. Að vinna að þessu er til dæmis hægt í formi fræðslu og leiðbeininga, eða með markvissum þjónustuleiðum í boði vinnuveitenda.

#3: Við erum öll almannavarnir

Okkur hefur tekist ótrúlega vel að sameinast um að vera öll almannavarnir. Við stóðum saman. Við sýndum hvort öðru stuðning og skilning.

Í kjölfar Covid er mikilvægt að halda þessari samstöðu áfram. 

Og sýna hvort öðru skilning.

Á vinnustöðum má til dæmis alveg búast við því að einhverjir þurfi aukinn sveigjanleika eða næði, til að byggja sig upp að nýju og til að ná úr sér Covidþreytunni.

#4: Andleg heilsa jafn mikilvæg áhersla og líkamleg heilsa

Á síðustu árum hefur meðvitundin um mikilvægi líkamlegrar heilsu verið áberandi á mörgum vinnustöðum. En eitt af því sem Covid hefur kennt okkur, er að andleg heilsa er ekkert síður mikilvæg. 

Því betur sem okkur líður, því betur erum við í stakk búin til að takast á við breytta tíma.

Í kjölfar Covid og bólusetninga er því mælt með því að vinnustaðir líti á áherslur andlegrar og líkamlegar heilsu sem áframhaldandi ferðalag. Þar sem hvort fyrir sig skiptir jafn miklu máli.


Tengdar fréttir

Fimm einkenni rafrænnar þreytu sem allir þurfa að taka alvarlega

„Þó að rafræn samvera geti sannarlega gert okkur nánari, getur hún einnig orðið til þess að við finnum fyrir meiri einangrun. Þegar við verjum mörgum klukkustundum á viku á Teams-fjarfundum eða Zoom-fyrirlestrum getur það leitt til rafrænnar þreytu,“ segir Ingrid Kuhlman framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar.

„Ekki nóg að stilla stólinn rétt og hafa skrifborðið í réttri hæð“

Vinnan getur verið uppspretta andlegrar orku, ekkert ólíkt þeirri upplifun að ganga á fjöll eða sinna öðrum áhugamálum. Vinnustaðir þurfa að hanna sveigjanlegri kerfi sem hver og einn starfmaður getur aðlagað að sér og sínum verkefnum. Og íslensk fyrirtæki eru nú þegar að sjá vísbendingar um að fólk hugi að flutningum á milli landshluta eða jafnvel til annarra landa, nú þegar fjarvinna er orðin að veruleika til framtíðar.  Þetta er meðal þess sem fram kemur í svörum mannauðstjóra sem teknir voru tali í dag, í tilefni alþjóðlega mannauðsdagsins sem er í dag.

Algengast að vinnustaðir vilji auka ánægju starfsfólks og bæta þjónustu

„Það var ánægjulegt að sjá áherslu svarenda á ánægju starfsmanna, bæði sem helstu stefnumarkandi áskorun vinnustaða og helsta markmið hvað varðar starfsþróun,“ segir Guðrún Högnadóttir framkvæmdastjóri FranklinCovey á Íslandi um niðurstöður rannsóknar sem gerð var meðal stjórnenda í mars síðastliðnum. Niðurstöðurnar sýna að mikil vitundavakning hefur orðið á vinnumarkaði um mikilvægi þess að bæta andlega líðan og heilsu starfsfólks og stuðla þannig að vaxandi árangri vinnustaða.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.