Körfubolti

Þjálfari í WNBA sektaður og settur í bann fyrir það sem hann sagði um körfu­bolta­konu í miðjum leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liz Cambage svaraði fyrir sig á samfélagsmiðlum og þjálfarinn var sektaður og settur í bann.
Liz Cambage svaraði fyrir sig á samfélagsmiðlum og þjálfarinn var sektaður og settur í bann. Getty/Ethan Miller

Curt Miller, þjálfari Connecticut Sun, hefur svarað ásökunum körfuboltakonunnar Liz Cambage með því að biðjast afsökunar á orðum sínum. Hann slapp þó hvorki við sekt né leikbann.

Ástralski miðherjinn Liz Cambage, sem spilar með Las Vegas Aces, er einn besti leikmaðurinn í WNBA og var skiljanlega mjög ósátt með það sem þjálfari mótherjanna sagði um hana þegar hann var að kvarta í dómurum leiksins.

Liz Cambage er 203 sentímetrar á hæð og er skráð 97 kíló. Þjálfarinn Curt Miller hélt hins vegar öðru fram í leik Connecticut Sun og Las Vegas Aces.

Miller fór að tala um þyngd Cambage þegar hún fékk ódýra villu. Liz Cambage vakti athygli á þessu í löngum pistil á Instagram síðu sinni.

Þjálfarinn á meðal annars að hafa sagt við dómarann: „En hún er 300 pund“ en 300 pund eru 136 kíló.

Liz Cambage gaf upp þyngd sína í pistlinum og sagðist vera 203 sentimetrar á hæð og 106 kíló á þyngd. Hún sagðist líka vera stolt af því að vera stór kona.

„Ég mun aldrei leyfa karlmanni að sýna mér óvirðingu, aldrei, aldrei, aldrei og alls ekki einhvern lítinn hvítan karl,“ skrifaði Cambage.

„Þú skalt aldrei sýna mér eða annarri konu í þessari deild óvirðingu,“ skrifaði Cambage.

Miller þjálfari sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann baðst afsökunar.

„Ég lét út úr mér óviðeigandi og móðgandi athugasemd varðandi hæð og þyngd Liz Cambage. Ég sé eftir því sem ég sagði í hita leiksins og vil biðja Liz og alla í Aces liðinu innilega afsökunar. Ég átt mig á alvarleika þess sem ég sagði og hef lært af þessu,“ sagði Curt Miller í yfirlýsingu sinni.

Curt Miller slapp þó ekki við refsingu. Hann fékk tíu þúsund dollara sekt og einn leik í bann en sektin er upp á 1,2 milljónir íslenskra króna.

Liz Cambage er 29 ára gömul og áströlsk landsliðskonan. Hún var stigahæsti leikmaður WNBA deildarinnar árið 2018. Á þessu tímabili er hún með 13,8 fráköst, 7,5 fráköst og 2,5 varin skot að meðaltali í leik.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×