Viðskipti innlent

Sigur­lína nýr stjórnar­for­maður Solid Clouds

Atli Ísleifsson skrifar
Sigurlína stýrði þróun Star Wars Battlefront sem er mest seldi Star Wars tölvuleikur allra tíma.
Sigurlína stýrði þróun Star Wars Battlefront sem er mest seldi Star Wars tölvuleikur allra tíma. Solid Clouds

Sigurlína Ingvarsdóttir hefur tekið við stjórnarformennsku hjá Solid Clouds, framleiðanda fjölspilunartölvuleiksins Starborne.

Frá þessu segir í tilkynningu frá Solid Clouds, en meðstjórnendur Sigurlínu eru þau Ólafur Andri Ragnarsson varaformaður, Eggert Árni Gíslason, Guðmundur Ingi Jónsson og Svanhvít Friðriksdóttir. Varastjórn skipa svo þau Þorlákur Traustason, Heimir Þorsteinsson og Ársæll Valfells.

„Sigurlína Ingvarsdóttir er sjálfstæður stjórnunarráðgjafi sem hefur nýverið snúið heim til Íslands eftir tíu ára búsetu og störf í Malmö, Stokkhólmi, Vancouver og Kaliforníu.

Hún er margreyndur stjórnandi í tölvuleikjaiðnaðinum og hefur unnið hjá fyrirtækjum á borð við Ubisoft, EA DICE, EA Sports og Bonfire Studios.

Sigurlína stýrði þróun Star Wars Battlefront sem er mest seldi Star Wars tölvuleikur allra tíma og tók svo við að stýra framtíðarstefnu EA Sports FIFA, fótboltatölvuleiksins sem er eitt stærsta tölvuleikjavörumerki sögunnar. Þar stýrði hún einnig gerð FIFA Volta, nýrrar viðbótar við FIFA sem kom út í fyrsta skipti í FIFA 20 útgáfunni,“ segir í tilkynningunni en Sigurlína situr fyrir í stjórnum fyrirtækjanna Aldin Dynamics, Carbon Recycling International og vaxtarsjóðsins Eyris Vaxtar.

400 þúsund spilarar

Solid Clouds var stofnað af Stefáni Gunnarssyni, Stefáni Björnssyni og Sigurði Arnljótssyni sem var fyrsti forstjóri CCP.

Leikurinn Starborne Sovereign Space var gefinn út á síðasta ári og segir að um 400 þúsund spilarar frá um 150 löndum hafi spilað hann.

Hjá Solid Clouds starfa sextán manns.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×