Viðskipti innlent

CCP vann til Webby verðlauna

Samúel Karl Ólason skrifar
Bergur Finnbogason, listrænn stjórnandi hjá CPP, við Fagradalsfjall.
Bergur Finnbogason, listrænn stjórnandi hjá CPP, við Fagradalsfjall.

CCP Games vann í gær til hinna virtu Webby netverðlauna fyrir smáleik innan leiksins EVE Online. Nánar tiltekið snúast verðlaunin sem CCP vann um samfélagsþjónustu innan tölvuleikja og heitir verkefnið sem vann Project Discovery.

Sjá má flokkinn sem CCP vann hér á vef Webby-verðlaunanna.

Project Discovery er smáleikur innan EVE Online þar sem spilarar hjálpa vísindamönnum við að vinna raunverulega úr gögnum um það hvaða áhrif Covid-19 hefur á blóðflögur og ónæmiskerfi manna.

327 þúsund spilarar EVE Online lögðu vísindamönnum lið í gegnum leikinn og spöruðu þeim alls 330 ára rannsóknarvinnu. Fyrir að taka þátt fengu spilarar verðlaun inn í leiknum.

Project Discovery var meðal annars unnið í samvinnu við Massively Multiplayer Online Science, eða MMOS, sem hefur á undanförnum árum unnið einnig með öðrum leikjaframleiðendum að sambærilegum verkefnum.

Áhugsamir geta lesið sig meira til um Project Discovery á vef CCP Games.

Í tilkynningu frá CCP er haft eftir Bergi Finnbogasyni hjá CCP að spilarar EVE Online hafi haft raunveruleg áhrif og vonast hann til þess að verðlaunin muni leiða til þess að fleiri aðilar finni frumlegar leiðir til að hjálpa vísindamönnum.

Þá er haft eftir Attila Szantner, framkvæmdastjóra og einum stofnenda MMOS, að þegar hann og samstarfsmenn hans byrjuðu að leiða saman hesta tölvuleikja og vísinda, hafi ekki órað fyrir þeim að vinna til Webby-verðlauna. Vonaðist hann til þess að fleiri framleiðendur taki þátt í starfi þeirra í framtíðinni.

Verðlaunaræður Webby-verðlaunanna eru þekktar fyrir að vera takmarkaðar við fimm orð. Ræða Bergs, sem flutti hana fyrir hönd CCP, var tekin upp við Fagradalsfjall.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×